Home Fréttir Í fréttum Þverum Þorskafjarðar: útboð væntanlegt

Þverum Þorskafjarðar: útboð væntanlegt

506
0
Mynd Viaplan af nokkrum leiðum um Gufudalssveit. Þ-H leiðin er samkvæmt bláu línunni.

Vegagerðin stefnir að því að bjóða út í september þverun Þorskafjarðar. Samningaviðræður standa yfir við landeigendur Þórisstaða og Kinnarstaða og segist Sigurþór Guðmundsson vera bjartsýnn á að samkomulag náist í tæka tíð. Samningar hafa tekist við eigendur Skálaness.

<>

Þverun Þorskafjarðar er einn stærsti verkþátturinn í Þ-H leiðinni, nýjum vegi um Gufudalssveit, og ætla má að kostnaðurinn verði um 2 milljarðar króna.

Heildarkostaður verksins er áætlaður liðlega 7 milljarðar króna.

Þá standa enn yfir viðræður við eigendur jarðanna Hallsteinsness og Grafar, en þeir hafa lýst yfir eindreginni andstöðu við Þ-H leiðina.

Sigurþór sagði að Vegagerðin hefði lagt fram tilboð til landeigenda og að svör hefðu fengist. Hann vildi ekkert segja um stöðu viðræðnanna annað en að þær væru í ferli.

Hins vegar væri því ekki að neita að sá tímapunktur nálgaðist taka yrði ákvörðun um beiðni um eignarnám.

Kæra Landverndar á útgáfu framkvæmdaleyfis til Vegagerðarinnar fyrir Þ-H leiðinni er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál og er búist við úrskurði í byrjun september samkvæmt því sem fram kom í úrskurði nefndarinnar þann 5. júní þegar hafnað var kröfu um stöðvun framkvæmda þar til úrskurðurinn lægi fyrir.

Sigurþór Guðmundsson kvaðst ekki bjartsýnn á að unnt yrði að bjóða út fyrir áramót vegagerðina um Djúpafjörð og Gufufjörð fari svo að úrskurðarnefndin leggði blessun sína yfir Þ-H leiðina. Hann sagði að líklega færi það útboð yfir á næsta ár.

Heimild: BB.is