Home Fréttir Í fréttum Ný heilsugæslustöð rís í Mývatnssveit

Ný heilsugæslustöð rís í Mývatnssveit

65
0

Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri heilsugæslustöð í Mývatnssveit sem áætlað er að taka í notkun í febrúar á næsta ári. Núverandi heilsugæsla er rekin í gömlu íbúðarhúsi sem hentar illa starfseminni. Trésmiðjan Rein ehf. sem byggir húsnæðið átti lægsta tilboð í verkið, tæpar 96 milljónir króna.

<>

Áform um byggingu heilsugæslustöðvar í Mývatnssveit eiga sér langa sögu, en til þessa hefur gamla íbúðarhúsið að Helluhrauni 17 í Reykjahlíð verið látið duga með lítilsháttar lagfæringum sem gerðar hafa verið á síðari árum. Í apríl 2014 lauk Framkvæmdasýsla ríkisins frumathugun á mögulegum kostum til að bæta úr húsnæðismálum heilsugæslunnar. Niðurstaðan var sú að skynsamlegast væri að byggja, fremur en að ráðst í framkvæmdir við núverandi húsnæði, þar sem gagngerar endurbætur myndu ekki nægja til að sníða af því ýmsa vankanta.

Sérstaða vegna mikils fjölda ferðamanna

Heilsugæslan í Mývatnssveit þjónar grunnheilsugæslu í um 400 manna byggðarlagi. Íbúafjöldinn segir þó lítið um notkun þjónustunnar þar sem ferðamannastraumur á svæðinu er mikill og sívaxandi allan ársins hring. Fjöldinn er þó langmestur á sumrin, eða um 5000 ferðamenn dag hvern, samkvæmt tölum frá árinu 2013 og skapar þessi mikli fjöldi ferðamanna ákveðna sérstöðu varðandi þjónustu heilsugæslustöðvarinnar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Dagbjört Sigríður Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur tóku fyrstu skóflustunguna að nýju heilsugæslustöðinni sem mun rísa við hlið sveitarstjórnarskrifstofu Skútustaðahrepps að Hlíðavegi í Reykjahlíð. Húsið er timburhús og verður um 240 fermetrar að stærð, með um 30 fermetra opnu bílskýli. Arkítekt er Björn Kristleifsson.

Heimild: Velferðaráðuneyti