Home Fréttir Í fréttum Ó­sátt við að ná­granni geti hafnað úr­bótum á brunavörnum

Ó­sátt við að ná­granni geti hafnað úr­bótum á brunavörnum

297
0
Katrín Sif vill gjarnan bæta úr brunavörnum heimilis síns en það er háð samþykki nágranna. Fréttablaðið/Anton Brink

Eig­andi ó­sam­þykktrar þak­í­búðar hefur reynt að finna lausn á ó­full­nægjandi bruna­vörnum í­búðarinnar.

<>

Það gengur illa því úr­bætur eru háðar sam­þykki allra íbúa. Hún telur að að­gerða sé þörf til að ýta á hús­fé­lög að leysa slík mál.

Katrín Sif Einarsdóttir keypti sér á síðasta ári ósamþykkta þakíbúð í miðbænum, nánar tiltekið við Tjarnargötu 10D.

Fljótlega eftir kaupin fór hún að velta fyrir sér brunavörnum í húsinu öllu og blasti þá við að úrbóta væri þörf.

Harmleikurinn á Bræðraborgarstíg varð síðan til þess að hún hefur tekið málið enn fastari tökum.

„Það eru fjórar íbúðir í húsinu og þær hafa allar aðgengi að svölum á bakhlið hússins og því einhverskonar útgönguleið ef eldsvoði ætti sér stað.

Það sama gildir ekki um mína íbúð. Ég get mögulega skriðið út á þak í gegnum litla glugga en þar yrði ég föst,“ segir Katrín Sif.

Hún hafi því ráðist í verkefnið og fengið arkitekt til þess að hanna lausn á vandamálinu.

„Sú lausn felst í því að gera kvist á þakið og litlar inndregnar svalir. Þaðan gæti ég komist á svalirnar fyrir neðan mig,“ segir Katrín Sif.

Fréttablaðið/Anton Brink

Hún segist hafa búist við því að málið yrði auðsótt og allt stefndi í það. „Ég hafði unnið alla vinnuna, sótt um breytingarnar hjá byggingar- og skipulagsstjóra en það eina sem vantaði er samþykki íbúa annarra íbúa.

Ég taldi það auðsótt enda yrðu framkvæmdirnar alfarið á minn kostnað og myndu ekki valda neinu raski.

Þá eru þær ekki sýnilegar öðrum íbúum né frá götu,“ segir Katrín Sif.

Rétt er að geta þess að ekki yrði hægt að fá íbúðina samþykkta þó að brunamálum yrði kippt í lag.

„Þetta snýst bara um öryggi þeirra sem búa í þessari íbúð. Ég er fullur aðili að húsfélaginu og borga þar mín gjöld í hlutfalli við eignarhlut minn í húsinu,“ segir Katrín Sif.

Það hafi því komið henni verulega á óvart þegar einn eigandi íbúðar í húsinu sagði einfaldlega nei við beiðni hennar.

„Sá aðili notar íbúðina sem skrifstofu og vinnur þar í tvo tíma á dag. Hann sagði bara þvert nei strax og tilkynnti mér að ég hefði ekki átt að kaupa íbúðina og ætti að selja hana aftur,“ segir Katrín Sif.

Hún segir fráleitt að sjálfsögð mannréttindi eins og aðgangur að brunaútgangi séu háð samþykki nágranna.

„Fyrst að það er löglegt að vera með lögheimili sitt í ósamþykktum íbúðum þá á hið opinbera að grípa inn í þegar brunavörnum er ábótavant og ýta með einhverjum hætti á að húsfélagið finni lausn á vandamálinu í sameiningu.

Harmleikurinn við Bræðraborgarstíg sýnir að það er víða þörf til þess að bæta úr þessum málum.

Í þessu tilviki er ég sem íbúðareigandi að reyna að tryggja öryggi mitt og það á ekki að vera háð samþykki eins nágranna og þar við situr,“ segir Katrín Sif.

Í síðustu viku var haft eftir Jóni Viðari Matthíassyni, slökkviliðsstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu að hann vildi skoða hvort að heimilt yrði að beita sektum til þess að þvinga fram úrbætur brunavarna þar sem þeirra er þörf.

Benti Jón Viðar á að slökkviliðið hefði heimild til að skoða og grípa til aðgerða varðandi brunavarnir iðnaðarhúsnæðis á landinu en slíkt ætti ekki við um íbúðarhúsnæði.

„Það er úrræði sem mér hugnast vel og gæti stuðlað að því að húsfélög leysi vandamál sem þessi í sameiningu í stað þess að einhver geti bara hafnað slíkum úrbótum,“ segir Katrín Sif.

Heimild: Frettabladid.is