Söfnun undirskrifta er hafin til stuðnings áskorun til Vegagerðarinnar um að lokið verði við malbikun síðasta kafla Grafningsvegar, eins kílómetra búts vestan við Írafossvirkjun.
Fyrir undirskriftasöfnuninni stendur Jakob Guðnason, staðarhaldari skátamiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni.
„Við viljum að Vegagerðin klári að leggja bundið slitlag á Grafningsveg númer 360,“ segir í texta undirskriftalistans.
„Nú í sumar verður búið að leggja bundið slitlag á Grafningsveg frá Úlfljótsvatni að Hagavík við Þingvallavatn.
Þegar því lýkur verður hægt að aka hringinn í kringum Þingvallavatn og Úlfljótsvatn að undanskildum rúmlega eins kílómetra kafla frá brúnni við Írafoss og að gatnamótum Grafningsvegar nr. 360 og Grafningsvegar neðri númer 350.
Vegagerðin hefur síðustu ár heflað þennan vegkafla án þess þó að bæta efni í hann og standa því stórgrýti uppúr honum öllum og þess á milli stórar og leiðinlegar holur,“ segir í áskoruninni.
„Ég hef heyrt bæði að Landsvirkjun eigi þennan kafla og Vegagerðin vilji að þeir lagi þetta, sem er undarlegt því þennan kafla átti að klæða fyrir 10 til 15 árum þegar klæðning var lögð framhjá Úlfljótsvatni en var skorið niður vegna kostnaðar,“ segir Jakob þegar fréttastofa spurði hvort hann hefði fengið skýringar á því hversvegna þessi eini vegstubbur væri skilinn eftir.
„Eins hef ég heyrt að þeir vilji breyta vegstæðinu við brúna. Vegagerðin hefur ekki viljað svara mér með þetta,“ segir Jakob.
Heimild: Visir.is