Home Fréttir Í fréttum Íbúðabyggingar á landsbyggðinni svara ekki kostnaði

Íbúðabyggingar á landsbyggðinni svara ekki kostnaði

94
0

Víða út um land er skortur á húsnæði helsta ástæða þess að erfitt er að fá fólk til að koma og setjast að á landsbyggðinni. En kostnaður við að byggja nýtt íbúðarhúsnæði er mikill og lánastofnanir eru ekki tilbúnar til að taka veð í húsum, nema fyrir helming eða minna af kostnaðinum  við að byggja. ,,Það svarar ekki kostnaði að byggja nýjar fasteignir á landsbyggðinni,” segir í frétt á RÚV.

<>

Sveitastjórnarfulltrúi í Strandabyggð segir að einhvers staðar sé skakkt gefið í þjóðfélaginu. Jón Gísli Jónsson situr í sveitarstjórn í Strandabyggð. Á dögunum réðist hann í framkvæmdir og byggði hús á Hólmavík. „Í húsinu var 105 fermetra íbúð. Kostnaðurinn við þessa íbúð var 29 milljónir króna,” segir Jón, og tekur fram að þar undir falli allur efniskostnaður, verð lóðarinnar og vinnukostnaður. Eftir að íbúðin var tilbúin reyndi Jón að fá lán hjá Íbúðalánasjóði með veði í íbúðinni, en þá var hún metin á 11 milljónir króna. Fasteignamat eignarinnar í dag er rétt rúmar 17 milljónir. „Svo að það blasir við að það svarar ekki kostnaði að byggja hús á Hólmavík. Og þetta er ekkert bara hjá okkur. Ég er hræddur um að svona sé þetta alls staðar á landsbyggðinni,” segir Jón.

Óttast að fasteignir grotni niður
Jón Gísli segir að meðan ástandið sé svona sé enginn hvati til að byggja hús úti á landi. „Maður tapar bara á því. Það er bara svoleiðis. Og hvernig á þá einhver uppbygging að geta átt sér stað á landsbyggðinni?” spyr Jón. „Þetta er raunverulegur vandi,” segir Jón, en í ljósi þess að hvorki sé hvati til að ráðast í uppbyggingu eða viðhald þá óttast hann að fasteignir á landsbyggðinni grotni smám saman niður.
„Einhvers staðar er skakkt gefið í okkar ágæta þjóðfélagi. En ég á mjög erfitt með að segja nákvæmlega hvar það er,” segir Jón. „Ég veit ekki hvað væri hægt að gera til að breyta þessu,” segir hann og tekur fram að viðhorf lánastofnana sé vel skiljanlegt, auðvitað horfi þær bara á verðið sem fasteignir seljast á. „Og þær seljast bara á svona lágu verði hér. Það er ósköp eðlilegt og erfitt að setja út á það, þó að manni finnist það andskoti súrt,” segir hann.

Heimild: Skutull.is