Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir við nýja frystigeymslu Eskju

Framkvæmdir við nýja frystigeymslu Eskju

328
0
Mynd/Þorgeir Baldursson

Framkvæmdir við nýja frystigeymslu Eskju á Eskifirði ganga samkvæmt áætlun.

<>

Vinna við fyrsta áfangann hófst í maí þegar fyrstu staurar voru reknir niður. Þegar sá hluti hússins verður risinn verður rými fyrir allt að 9 þúsund tonn af afurðum.

Alls er gert ráð fyrir þremur áföngum í þessum framkvæmdum og allt að 20.000 tonna frystigeymslu í heildina.

„Við vonumst til þess að geta hafið að nýta að minnsta kosti helming hússins í september þegar síldveiðar standa sem hæst,“ segir Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju.

Frystigeymslan í nýrri uppsjávarverksmiðju Eskju tekur 3.000 tonn og einnig er fyrirtækið með frystigeymslu á Reyðarfirði og önnur er í gamla frystihúsinu á Eskifirði.

Samkvæmt nýju skipulagi stendur til að rífa það hús og þar með hverfur sú aðstaða. Einnig hefur Eskja haft hluta af sínum uppsjávarafurðum í frystigeymslum erlendis.

Kostar að geyma erlendis
„Það verður mikið hagræði af því fyrir fyrirtækið að geta geymt afurðirnar sjálft. Það kostar að geyma þær annars staðar.

Það kemur líka fyrir að er erfitt sé að fá frystipláss í útlöndum þegar vel gengur í uppsjávarveiðum og auðvitað líka í erfiðum markaðsaðstæðum þegar varan stendur lengur,“ segir Hlynur.

Eskja er rótgróið útgerðarfyrirtæki, upphaflega stofnað árið 1944 og hét þá Hraðfrystihús Eskifjarðar.

Félagið gerir út fjögur uppsjávarskip og einn línubát og ræður yfir nærri níu prósentum af heildaraflahlutdeild í uppsjávartegundum.

Eskja hefur staðið í miklum fjárfestingum síðustu árin. Nýja uppsjávarfiskiðjuverið var reist árið 2016 við hlið mjöl- og lýsisvinnslu félagsins.

Nýja hátæknihúsið afkastar á einum degi álíka miklu og áður tók viku að frysta á sjó.

Húsið hefur verið sýningargripur fyrir Skagann 3X sem hefur reist verksmiðjur í sama stíl, m.a. fyrir Gidrostroy í Rússlandi.

Afköstin geta farið upp í 750 tonn á dag í makríl þegar best gengur.

Heimild: Fiskifréttir.is