Home Fréttir Í fréttum Mótmæla rafmagnsloftlínum á Völlunum

Mótmæla rafmagnsloftlínum á Völlunum

73
0
Íbúar og fasteignaeigendur í Vallahverfi í Hafnarfirði mótmæla bráðabirgða loftlínu, sem á að liggja frá tengivirkinu við Hamranes til vesturs meðfram Ásvallabraut og Straumsvíkurlínum og áfram um 1,5 kílómetra leið að hornmastri við Hraunhellu, vegna lagningar Suðurnesjalínu 2.

Rafmagnslínan mun síðar meir fara í jarðstreng, en frá Hraunhellu er gert ráð fyrir loftlínu til vesturs að sveitarfélagsmörkum Voga.

<>

Tæplega sjöhundruð hafa skrifað undir áskorun um að fallið verði frá þessum áformum, en um 4300 manns búa á Völlunum. Loftlínan muni að þeirra mati hafa verulega neikvæð áhrif á útivist, útsýni og hljóðvist í Vallahverfinu og hafa áhrif til lækkunar fasteignaverðs. Að auki muni þetta festa í sessi tengivirki sem ítrekað hafi verið lofað að skuli hverfa eða minnka verulega að umfangi.

Áform um loftlínuna voru kynnt íbúum á Völlunum í mars, en Skipulagsstofnun mælti með að framkvæmdin færi í grenndarkynningu. Í grenndarkynningunni kemur ekki fram til hversu langs tíma bráðabirgðalínan muni standa.

Loftlínu frá Hraunhellum að Vogum hefur verið harðlega mótmælt, og hafa landeigendur krafist þess að ákvörðun Orkustofnunar um að heimila Landsneti að leggja háspennulínu á landi þeirra verði felld úr gildi. Dómsmál vegna eignarnámsins bíður efnislegrar meðferðar héraðsdóms.