Home Fréttir Í fréttum Ný Valhöll byggð fyrir brunabætur

Ný Valhöll byggð fyrir brunabætur

65
0

Reisa á nýja Valhöll á Þingvöllum og nýja byggingu undir Árnastofnun, samkvæmt tillögu sem ríkisstjórnin vill ná samstöðu um á Alþingi til að minnast eitthundrað ára afmælis fullveldis Íslands eftir þrjú ár.

<>

Áformin um að nýta hundrað ára teikningu Guðjóns Samúelssonar fyrir skrifstofubyggingu Alþingis hafa vakið mesta athygli. Tillagan um hvernig þessara merku tímamóta í sögu þjóðarinnar verður minnst snýr hins vegar að fleiri þáttum.

„Þarna er líka fjallað um hátíðahöldin sjálf, annarsvegar á Þingvöllum og hins vegar 1. desember í Reykjavík. Og raunar líka bókaútgáfu, að skrifa sögu atburðarásarinnar og fullveldisins,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali.

Forsætisráðherra leggur áherslu á að ná breiðri sátt á Alþingi um það sem gert verður en það sem er efst á blaði er að ljúka byggingu yfir stofnun Árna Magnússonar, sem geymir sjálf handritin, dýrustu djásn íslenskrar sögu, eins og segir í tillögunni.

„Ég held að það sé ágætis samstaða um það, að tengja það þessum viðburði,“ segir forsætisráðherra um það að byggja hús yfir Árnastofnun, hús íslenskra fræða.

Þá vekur athygli að lagt er til að ný Valhöll verði reist á Þingvöllum en sú gamla brann í eldsvoða fyrir sex árum.

„Nú er búið að klára það mál að því leyti að það er búið að greiða ríkinu brunabætur og eðlilegast að þær nýtist þá í einhverskonar sambærilegt hús, sem verði opið almenningi. Þar verði þjónusta fyrir ferðamenn og kannski veitingasala og aðstaða fyrir þjóðgarðsvörð og slíkt.

Með því er ekki verið að falla frá öðrum áformum sem hafa verið til skoðunar á Þingvöllum. Það mun þurfa að ráðast í mjög mikla uppbyggingu, til dæmis á Hakinu, óháð þessu. En það er mikilvægt að dreifa álaginu sem víðast um Þingvelli,“ segir forsætisráðherra.

Heimild: