Home Fréttir Í fréttum Eigendur VHE byggja upp sjóð í systurfélagi

Eigendur VHE byggja upp sjóð í systurfélagi

630
0
VHE velti 6,7 milljörðum króna árið 2018. Fréttablaðið/Ernir

Eigendur VHE hafa byggt upp eigið fé í systurfélaginu Nesnúpi. Arðgreiðslur út úr félaginu nema 40 milljónum. Skuldar tengdum félögum hundruð milljóna. VHE ekki greitt eigendum arð frá fjármálahruninu.

<>

Eigendur VHE hafa byggt upp eigið fé í systurfélaginu Nesnúpi. Arðgreiðslur út úr félaginu nema 40 milljónum. Skuldar tengdum félögum hundruð milljóna. VHE ekki greitt eigendum arð frá fjármálahruninu.

m

VHE, eða Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar, og Nesnúpur eru bæði í meirihlutaeigu Unnars Steins Hjaltasonar sem fer með 80 prósenta hlut í hvoru félagi á móti systkinum sínum, Einari Þór og Hönnu Rúnu Hjaltabörnum.

VHE er rótgróið fyrirtæki, stofnað 1971, sem var byggt upp á þjónustu við álver. Það er jafnframt orðið umsvifamikið í byggingageiranum og velti 6,7 milljörðum króna á síðasta ári. Allt frá fjármálahruninu, þegar lán frá Landsbankanum tóku stökkbreytingu, hefur VHE hins vegar glímt við vanskil og lausafjárskort.

Skuldastaða fyrirtækisins hefur einnig komið í veg fyrir að hluthafar hafi getað greitt sér arð. Skuldirnar hafa þó verið greiddar niður jafnt og þétt á undanförnum árum en þær námu 8,3 milljörðum króna í lok árs 2018 samanborið við 10,1 milljarð í lok árs 2016.

Nesnúpur var stofnað árið 2009 með 500 þúsund króna hlutafé. Enginn starfsmaður er á skrá og VHE sér um daglegan rekstur þess. Hlutafé Nesnúps hefur aldrei verið aukið, né heldur hafa hluthafar veitt félaginu hluthafalán.

Umsvif Nesnúps hafa hins vegar aukist gríðarlega frá stofnun félagsins. Það hefur staðið að framkvæmdum að Hafnarbraut í Kópavogi, Eskivöllum í Hafnarfirði, Holtsvegi í Garðabæ og í Skarðshlíð. Eignir félagsins námu tæplega 3,4 milljörðum króna í lok árs 2018 og eigið fé rúmlega 300 milljónum.

Nesnúpur hefur skuldað tengdum aðilum á bilinu 125 til 852 milljónir króna frá árslokum 2013 til 2018 en í ársreikningum félagsins er ekki tekið fram hvaða aðilar það eru. Þá kemur ekki fram hvers konar kjör eða skilmálar fylgja lánunum. Skuldir við tengda aðila námu 850 milljónum í lok árs 2016 en höfðu lækkað niður í rúmlega 300 milljónir í lok árs 2018.

Skuldir Nesnúps námu alls þremur milljörðum króna samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2018. Þar af voru eftirstöðvar af fasteignaláni, sem var flokkað sem langtímaskuld, 1,5 milljarðar króna og eftirstöðvar af framkvæmdaláni, sem var flokkað sem skammtímaskuld, voru tæplega milljarður króna.

Samkvæmt heimildum Markaðarins er Íslandsbanki stærsti lánveitandi Nesnúps en algengt er að bankar krefji verktaka um 20 til 30 prósenta eiginfjárframlag þegar lánað er til byggingaframkvæmda í venjulegu árferði.

Athyglin beinist að VHE

Umfangsmikið viðskiptasamband Upphafs, sem er í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus, við VHE var gert að umtalsefni í fréttaskýringaþættinum Kveik í síðustu viku.

Eins og kunnugt er voru sjóðsfélagar Novus upplýstir um það síðasta haust að við endurmat á eignum og áætlunum sjóðsins væri eigið fé, sem þremur mánuðum áður var metið á um 3,9 milljarða króna, aðeins talið vera um 42 milljónir króna.

Sjóðsfélagar fengu þær skýringar að raunveruleg framvinda margra verkefna Upphafs, sem hefur staðið í framkvæmdum og sölu á yfir 400 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, hafi reynst ofmetin. Kostnaður við framkvæmdir hafi auk þess verið langt yfir áætlunum.

Í þætti Kveiks var greint frá gögnum sem sýndu tugmilljóna króna greiðslur VHE til félags Péturs Hannessonar, sem var framkvæmdastjóri Upphafs frá árinu 2014 þar til hann hætti snemma árs 2019. Greiðslurnar spanna svipað tímabil, eða frá 2015 fram á mitt ár 2019 og námu þær alls 58 milljónum króna. Núverandi stjórnendur Gamma hafa tilkynnt Pétur til lögreglu.

Upphaf greiddi VHE og undirverktökum þess ríflega sjö milljarða króna vegna byggingaframkvæmda frá árinu 2015. Ekkert af þessum verkefnum var boðið út heldur var samið beint við VHE og gerðir voru svokallaðir cost-plús-samningar. Í þeim fólst að Upphaf greiddi allan kostnað við framkvæmdirnar að viðbættu álagi til VHE.

Nesnúpur á lóðirnar í reynd

VHE sagði í yfirlýsingu að skýringin á greiðslunum til Péturs væri ráðgjöf sem hann veitti fyrirtækinu í fasteignaverkefnum á síðustu árum. Um væri að ræða greiðslur vegna aðskilinna verkefna sem blönduðust ekki verkefnum Upphafs á neinn hátt.

VHE nefndi í svari sínu að ráðgjöfin tengdist lóðakaupum VHE og framkvæmdum á Eskivöllum í Hafnarfirði og Hafnarbraut 27 í Kópavogi. Aftur á móti sýna veðbandayfirlit og kaupsamningar að lóðirnar eru ekki í eigu VHE heldur Nesnúps.

Fyrirtækin hafa bæði tekið þátt í útboðum á sömu lóðum. Morgunblaðið greindi til að mynda frá því haustið 2016 að VHE og Nesnúpur hefðu bæði boðið hæst í allar sex lóðirnar sem voru boðnar til sölu í útboði sem Hafnarfjarðarbær stóð fyrir í tengslum við fyrsta áfanga uppbyggingar Skarðshlíðar á Völlunum.

Fyrirspurnir Markaðarins

Unnar Steinn Hjaltason, aðaleigandi VHE og Nesnúps, svaraði ekki fyrirspurn Markaðarins um viðskiptasamband félaganna tveggja þegar eftir því var leitast. Spurningarnar voru svohljóðandi:

*Hversu mikið af skuldum Nesnúps við tengda aðila má rekja til VHE?

*Hefur Nesnúpur þurft að reiða fram tryggingar vegna lána frá VHE eða fengið vaxtalausa fresti á greiðslum á lánum?

*Er hægt að fá útskýringar á viðskiptasambandi VHE og Nesnúps, og því hvernig kostnaður og ábati af uppbyggingu skiptist milli félaga?

Landsbankinn, viðskiptabanki VHE, sagði í svari við annarri fyrirspurn Markaðarins að bankanum væri óheimilt að tjá sig um málefni einstakra viðskiptavina.

 

Heimild: Frettabladid.is