Home Fréttir Í fréttum Flýta fram­­kvæmdum við flug­velli til að skapa störf

Flýta fram­­kvæmdum við flug­velli til að skapa störf

97
0
Mynd: Fréttablaðið/Anton Brink

Stjórn­völd hafa flýtt fram­kvæmdum við Akur­eyrar­flug­völl og Egils­staða­flug­völl til að skapa um 50 störf í ár í miðjum kóróna­veirufar­aldrinum. Þetta er hluti víð­tækari að­gerða ríkis­stjórnarinnar til að efla at­vinnu­lífið og ferða­þjónustuna.

<>

Stækkanir og fram­kvæmdir við Akur­eyrar­flug­völl og Egils­staða­flug­völl verða meðal sam­göngu­fram­kvæmda sem stjórn­völd ætla að flýta til að skapa störf í kóróna­veirufar­aldrinum. Þetta er hluti þeirra efna­hags­að­gerða ríkis­stjórnarinnar sem kynntar voru síðustu helgi.

Í til­kynningu frá sam­göngu­ráðu­neytinu segir að 500 til 600 milljónum verði varið á þessu ári til undir­búnings verk­efnanna á flug­völlunum. Flug­stöðina á Akur­eyri á að stækka, byggja flug­hlað á Akur­eyri og ak­braut á Egils­staða­flug­velli.

Á­ætlað er að um 50 störf skapist í ár við fram­kvæmdirnar. Þá segir að fram­kvæmdirnar séu einnig hugsaðar til að styðja við ferða­þjónustuna á Norður­landi þegar upp­bygging hennar hefst aftur að kóróna­veirufar­aldrinum loknum. Stefnt er að því að bjóða verkið út á vor­mánuðum og segir í til­kynningunni að um 40 árs­verk muni skapast hjá verk­tökum á svæðinu.

Framkvæmdirnar við flugvellina eiga að skapa um 50 ársverk. Mynd: Fréttablaðið/Anton Brink

„Ríkis­stjórnin hefur lagt mikla á­herslu á að efla og fjár­festa í inn­viðum sam­fé­lagsins. Mikil­vægt er að bregðast hratt við en gera jafn­framt lang­tíma­á­ætlanir eins og kostur er í þessari erfiðu stöðu sem sam­fé­lagið glímir við. Halda á­fram að byggja upp vegi, flug­velli og hafnir svo sam­fé­lagið verði í stakk búið þegar Co­vid-19 far­aldurinn verður um garð genginn,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhanns­syni, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra.

Ríkis­stjórnin mun ráðast í 20 milljarða króna fjár­festinga­á­tak sem verða hluti af efna­hags­að­gerðunum vegna far­aldursins. Þar af verður sex milljörðum varið í sam­göngu­fram­kvæmdir.

„Þrátt fyrir hrun í ferða­þjónustunni er brýn þörf fyrir upp­byggingu inn­viða og eru flug­vellir einn af lykil­þáttum fjár­festingar­á­taksins. Verk­efnin eru arð­bær. Þeim er hægt að flýta og þau skapa fjöl­breytt störf með skömmum fyrir­vara. Notum því tímann vel og höldum á­fram,“ segir ráð­herrann.

Heimild: Frettabladid.is