Stjórnvöld hafa flýtt framkvæmdum við Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll til að skapa um 50 störf í ár í miðjum kórónaveirufaraldrinum. Þetta er hluti víðtækari aðgerða ríkisstjórnarinnar til að efla atvinnulífið og ferðaþjónustuna.
Stækkanir og framkvæmdir við Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll verða meðal samgönguframkvæmda sem stjórnvöld ætla að flýta til að skapa störf í kórónaveirufaraldrinum. Þetta er hluti þeirra efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru síðustu helgi.
Í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu segir að 500 til 600 milljónum verði varið á þessu ári til undirbúnings verkefnanna á flugvöllunum. Flugstöðina á Akureyri á að stækka, byggja flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli.
Áætlað er að um 50 störf skapist í ár við framkvæmdirnar. Þá segir að framkvæmdirnar séu einnig hugsaðar til að styðja við ferðaþjónustuna á Norðurlandi þegar uppbygging hennar hefst aftur að kórónaveirufaraldrinum loknum. Stefnt er að því að bjóða verkið út á vormánuðum og segir í tilkynningunni að um 40 ársverk muni skapast hjá verktökum á svæðinu.
„Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að efla og fjárfesta í innviðum samfélagsins. Mikilvægt er að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við. Halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Ríkisstjórnin mun ráðast í 20 milljarða króna fjárfestingaátak sem verða hluti af efnahagsaðgerðunum vegna faraldursins. Þar af verður sex milljörðum varið í samgönguframkvæmdir.
„Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða og eru flugvellir einn af lykilþáttum fjárfestingarátaksins. Verkefnin eru arðbær. Þeim er hægt að flýta og þau skapa fjölbreytt störf með skömmum fyrirvara. Notum því tímann vel og höldum áfram,“ segir ráðherrann.
Heimild: Frettabladid.is