Hafist verður handa við að ganga frá yfirborði í hinu nýja hverfi á Hlíðarendasvæðinu í kringum næstu mánaðamót. Heildarkostnaður við yfirborðsfrágang verður um 820 milljónir króna. Stærsti hluti framkvæmdanna verður á þessu ári.
Um er að ræða fullnaðarfrágang yfirborðs í hverfinu eins og malbikun umferðargatna, hellulögn göngu- og hjólastíga, gróðursetningu og grasbeð auk lýsingar gatna og gönguleiða. Undirbúningur við framkvæmdir hefst á næstu dögum og fara framkvæmdir á fullt eftir páska ef veður leyfir.
Árið 2020 verður farið í framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar á þessu svæði fyrir 600 milljónir króna, árið 2021 fyrir 170 milljónir króna og árið 2022 er áætlað að framkvæmt verði fyrir 50 milljónir króna.
Skipulag Hlíðarendasvæðisins er í takt við stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar. Alls verða um 600 íbúðir í hverfinu að lokinni uppbyggingu og um 75.000 m2 af atvinnuhúsnæði.
Heimild: Mbl.is