Home Fréttir Í fréttum Samkomulag um nýtt húsnæði Vegagerðarinnar

Samkomulag um nýtt húsnæði Vegagerðarinnar

370
0

Reginn hf. og Vegagerðin rita undir samningum um byggingu og leigu.

<>

Forstjóri Vegagerðarinnar og forstjóri Regins hf. skrifuðu á föstudaginn síðasta undir samkomulag um byggingu nýrra höfuðstöða Vegagerðarinnar við Suðurhraun í Garðabæ.

Reginn mun byggja húsnæðið og eiga en Vegagerðin leigja til langs tíma. Eldra húsnæði í Suðurhrauni verður nýtt að einhverju leyti en mestmegnis er um nýsmíði að ræða.

Teikning af húsnæði Vegagerðarinnar að utan, útlit gæti breyst lítillega frá þessari mynd

Með nýjum höfuðstöðvum verður starfsemi Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu sameinuð á einn stað en Vegagerðin er nú á þremur stöðum, í Borgartúni, Vesturvör í Kópavogi og í Hringhellu í Hafnarfirði. Húsnæðið í Borgartúni er gamalt og hentar illa fyrir starfsemi Vegagerðarinnar.

Nýja húsnæðið tekur fullt mið af þörfum Vegagerðarinnar. Þar munu allir vinna í opnu rými, lögð verður áhersla á birtu og hljóðvist og mismunandi verkefni starfsmanna.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar sagði í dag að þetta væri stór dagur fyrir Vegagerðina enda hefði verið stefnt að því lengi að komast í nýtt húsnæði.

Teikning af húsnæði Vegagerðarinnar að innan, útlit gæti breyst lítillega frá þessari mynd

“Við erum að sameina þrjár starfsstöðvar í eina og það hefur verið lögð mikil vinna í að hanna húsnæði sem hentar mismunandi starfsemi Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem blandast saman hefðbundnari skrifstofuvinna og grófari vinna þjónustustöðvarinnar sem sinnir ýmiskonar vinnu á vegakerfinu á svæðinu,” bætti hún við.

Helgi S. Gunnarsson forstjóri regins sagði að þetta væri mjög jákvætt verkefni sérstaklega á þessum tíma. “Við verðum með allt að 100 manns í vinnu við þetta verkefni þegar mest verður.

Þetta er töluverð fjárfesting en við erum að nýta mannvirki sem eru til staðar og svæðið líka. Framkvæmdir hefjast strax á mánudag en undirbúningur hefur staðið yfir, við ætlum að vinna hratt og ljúka þessu á 12 mánuðum.

Í dag er því yfir þriðjungur af eignasafni Regins í leigu til opinberra aðila en eitt af yfirmarkmiðum Regins er að hafa hlutfall tekna frá opinberum aðilum þetta hátt enda um stöðuga og örugga leigusamninga að ræða þar sem leigutíminn er oft á tíðum lengri en gengur og gerist” sagði Helgi.

Heimild: Vegagerðin