Home Fréttir Í fréttum Verðmætum rafeindabúnaði stolið úr vinnuvélum

Verðmætum rafeindabúnaði stolið úr vinnuvélum

216
0
Mynd: Unsplash
Lögreglan rannsakar nú þjófnað á dýrum rafeindabúnaði sem stolið hefur verið úr vinnuvélum víða um land. Mögulega teygi málið anga sína til annarra landa.

Þetta mál kom upp hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra um miðjan febrúar. Í kjölfarið komu í ljós svipuð mál hjá lögreglu víðar um land sem rannsökuð hafa verið upp á síðkastið og einhver á síðasta ári.

<>

Brotist inn í vinnuvélar víða um land

Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, segir að tæki hafi verið fjarlægð úr vinnuvélum í nágrenni Akureyrar og Húsavíkur og vísbendingar séu um slíkt víðar um land. Ekki sé vitað með vissu hver eða hverjir þarna eru á ferðinni, en við rannsóknina fylgi lögreglan ýmsum vísbendingum og skoði ábendingar frá fólki. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að leitað sé að dökkum bíl á erlendum númerum, en Bergur segist ekki geta staðfest það.

Dýrum tækjum stolið og þau hugsanlega flutt úr landi

Svo virðist sem þarna sé verið að sækjast eftir mjög verðmætum búnaði, GPS tækjum, tölvuskjám og öðrum mælitækjum. Bergur segir að slíkur þjófnaður sé þekktur í öðrum löndum og við rannsókn málsins sé meðal annars gert ráð fyrir því að meintir þjófar geti farið með þýfið úr landi. Hann segir að löggæslustofnunum hérlendis og erlendis hafi verið gert viðvart ef svo kynni að vera að málið næði út fyrir landssteinana.

Heimild: Ruv.is