Home Fréttir Í fréttum Segir Sorpu á leið í greiðsluþrot um miðjan mars

Segir Sorpu á leið í greiðsluþrot um miðjan mars

191
0
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sorpa er, að óbreyttu, á leið í greiðsluþrot um miðjan mars. Félagið fer fram á 600 milljóna lán frá eigendum sínum á mánudag. Þetta sagði bæjarstjóri Mosfellsbæjar á bæjarstjórnarfundi í gær.

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar birti í janúar svarta skýrslu um stjórnarhætti og áætlanagerð vegna uppbyggingar gas- og jarðgerðarstöðvar á vegum Sorpu. Seint á síðasta ári kom í ljós að 1,4 milljarða króna vantaði í kostnaðaráætlun verkefnisins. Stjórn Sorpu vék Birni Halldórssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, úr starfi eftir að skýrslan kom út en rak hann í síðustu viku. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við störf hans.

<>

Málið var til umræðu á opnum bæjarstjórnarfundi í Mosfellsbæ í gær.

„Það er bara því miður að koma í ljós ennþá fleiri atriði sem eru vanhöld á í þessu. Sem snúa að því að stjórnin hefur ekki haft upplýsingar og framkvæmdir hafa verið unnar á samþykktar stjórnarinnar. Sem er bara einfaldlega að valda því, að ef að ekkert verður að gert, þá fer félagið í greiðsluþrot upp úr miðjum mars,“ sagði Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar á fundinum.

Boðað hefði verið til fundar með stjórn Sorpu á mánudaginn þar sem farið yrði yfir stöðuna og kynntar nánari athuganir á fjárhag og sjóðsstreymi Sorpu.

„Og það sem er í raun og veru verið að óska eftir er það, að það verði heimild til, og verði farið yfir á fundi væntanlega á mánudag, þar sem allir bæjarfulltrúar sveitarfélaganna eru boðaðir, að félagið fái heimild til frekari lántöku. Upp á einhverjar 600 milljónir til að brúa bilið fram að því hvernig það verður gert,“ sagði Haraldur.

Fréttastofa hefur ekki náð í Birki Jón Jónsson stjórnarformann Sorpu í dag. Líf Magneudóttir, varaformaður stjórnar, neitaði því ekki í samtali við fréttastofu að Sorpa stefndi í greiðsluþrot. Sjórnin væri að fara yfir stöðuna.

Heimild: Ruv.is