Home Fréttir Í fréttum Breyta skipulagi Sjómannaskólareits og Veðurstofureits

Breyta skipulagi Sjómannaskólareits og Veðurstofureits

180
0
Mynd: Íbúafélagið Vinir Saltfisks

Borgarráð staðfesti í dag breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur og deiliskipulagi til að heimila uppbyggingu á Veðurstofureit og Sjómannaskólareit.
Borgarfulltrúar meirihlutans fögnuðu því að grænt svæði yrði áfram umhverfis stakkstæðin í Saltfiskmóanum og Vatnshólinn eftir að fyrirhuguðum breytingum var breytt. Borgarfulltrúar flestra flokka í minnihluta gagnrýndu hins vegar hvernig staðið var að ákvörðuninni.

Íbúar nærri Sjómannaskólareitnum kvörtuðu undan því að til stæði að byggja svo mikið að það skaðaði Saltfiskmóann og Vatnshólinn sem útivistarsvæði og minjar. Brugðist var við því með því að breyta tillögunum og minnka byggingarmagn.

<>

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna sögðu að með breytingunum væri grænt svæði umhverfis stakkstæðin og Vatnshólinn tryggt til frambúðar.

Það hefði ekki verið raunin í eldra aðalskipulagi. Þeir sögðu aðalskipulagsbreytinguna því bæði til þess fallna að auka íbúðauppbyggingu og vernda græn svæði.

Sjálfstæðismenn undruðust flýtinn við afgreiðsluna og að tvö aðskilin mál, Sjómannaskólareitur og Veðurstofureitur, væru afgreidd samtímis. Þeir sögðu hins vegar jákvætt að tekið væri að einhverju leyti tillit til framkominnar gagnrýni.

Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins fagnaði því að dregið hefði verið úr byggingamagni svo Saltfiskmóinn, Vatnshóllinn og Sjómannaskólinn fengju að njóta sín.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins sagði að Minjastofnun og Borgarsögusagn hefðu staðið vörð um menningarminjar á reitnum í andstöðu við yfirgang meirihlutans.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins sagði að deiliskipulag Sjomannaskólareitsins hefði fengið óhemju viðbrögð og því miður mörg neikvæð. Fulltrúinn fagnaði því að dregið væri úr byggingamagni en sagði að endurmeta mætti samráðsferli svo það virkaði betur.

Loading..