Í næsta mánuði mun tölvuleikjaframleiðandinn CCP flytja alla starfsemi sína á Íslandi í nýjar sérhannaðar höfuðstöðvar fyrirtækisins í Vatnsmýrinni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Þá segir jafnframt að húsið, sem nefnist Gróska, sé hannað með þarfir skapandi iðnaðar í huga og flutningar fyrirtækisins þangað gefi kost á sterkari tengingu CCP við háskólasamfélagið, sem og við önnur leikja- og sprotafyrirtæki sem muni starfa í húsinu.
CCP stefnir enn fremur á að árið 2020 verði hið stærsta í 23 ára rekstrarsögu fyrirtækisins en 100 þúsund nýir spilarar byrjuðu að spila EVE Online í janúar á þessu ári. Það samsvarar rúmri tvöföldun á milli ára og er þetta sjötti besti mánuðurinn í 17 ára sögu EVE Online, samkvæmt fyrirtækinu.
Heimild: Kjarninn.is