Home Fréttir Í fréttum Vilja meira fé frá Garðabæ

Vilja meira fé frá Garðabæ

301
0
Frá framkvæmdasvæðinu í Vetrarmýri. Mynd: Fréttablaðið/Ernir

ÍAV vill 365 milljónir króna til viðbótar frá Garðabæ vegna byggingar íþróttahúss í Vetrarmýri.

<>

Minnihlutinn fordæmir skort á upplýsingagjöf.

Íslenskir aðalverktakar hafa farið fram á 364 milljóna króna viðbótarframlag, án verktakaálags, frá Garðabæ vegna byggingar fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri.

Upphaflegt tilboð ÍAV var 4,2 milljarðar og því er um 10 prósenta hækkun á heildarkostnaði að ræða.

Framkvæmdir við íþróttahúsið hafa verið í pattstöðu undanfarnar vikur en sveitarfélagið og verktakinn hafa deilt um hvor aðilinn eigi að sitja uppi með þennan viðbótarkostnað.

Eins og heimilisfangið gefur til kynna verður nýtt íþróttamannvirki Garðabæjar reist í mýri.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að byggingin myndi hvíla á eins konar staurum sem næðu niður í gegnum mýrina og á fast.

Þegar jarðvegsvinna fór af stað kom í ljós að ráðast þyrfti í sértækar aðgerðir til styrkingar á mýrarjarðveginum með ærnum tilkostnaði.

Er það mat verktakans að útboðsgögn sem lágu fyrir hafi ekki verið nægilega skýr og því sé um viðbótarverk að ræða sem Garðabær eigi að borga fyrir.

Afstaða bæjaryfirvalda er sú að um allsherjar­útboð hafi verið að ræða og því hljóti kostnaðurinn að rúmast innan skilmála verksamningsins.

Hefur bærinn aflað sér álits frá jarðtæknisérfræðingum tveggja verkfræðistofa, Eflu og Mannvits, og er það samdóma álit þeirra að ekkert hafi komið fram í málflutningi ÍAV sem bendi til þess að jarðvegurinn undir húsinu sé öðruvísi en alútboðsgögn gerðu ráð fyrir.

Fréttablaðið greindi fyrst frá deilunni um Vetrarmýrina þann 21. janúar. Í stuttu viðtali sagði Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, að hann væri fullviss um að enginn viðbótarkostnaður myndi falla á bæinn og tafir við verkið yrðu minni háttar.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Garðabæjar í vikunni og var hart tekist á. Á fundinum var farið yfir tímalínu samskipta við verktakann og kynnt niðurstaða lögmanns um að bærinn ætti að hafna kröfu ÍAV um viðbótarkostnað við byggingu hússins.

Voru fulltrúar minnihlutans afar ósáttir við skort á upplýsingagjöf frá bæjarstjóra. „Við höfum ítrekað kallað eftir upplýsingum um málið undanfarna mánuði án þess að fá fram ein einustu gögn um stöðuna.

Á fundinum nú í byrjun febrúar kemur síðan í ljós að Gunnar Einarsson bæjarstjóri hefur vitað af ágreiningnum og þeirri stöðu sem nú er upplýst um síðan í júlí á síðasta ári án þess að hafa frumkvæði að því að upplýsa bæjarráð um gang mála. Þessi stjórnsýsla er til skammar,“ segir Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Garðabæjarlistans.

Deiluaðilar munu funda um málið á næstu dögum en ef engin lausn finnst má telja líkur á því að málið fari fyrir dómstóla.

Heimild: Frettabladid.is