Home Fréttir Í fréttum Kostnaður við vatnsrennibraut langt fram úr áætlun

Kostnaður við vatnsrennibraut langt fram úr áætlun

279
0
Skjáskot af rúv.is

Kostnaður við nýja vatnsrennibraut í sundlauginni á Húsavík var um 30 milljónum króna meiri en áætlað var. Í úttekt á verkinu eru gerðar alvarlegar athugasemdir við undirbúning og eftirlit með fjárfestingunni.

<>

Nýja rennibrautin var tekin í notkun í fyrrasumar. Þá var ljóst að verkið hafði farið umtalsvert fram úr áætlun og var ákveðið að fá KPMG til að gera úttekt á fjárfestingunni.

Í úttektinni eru gerðar margvíslegar og alvarlegar athugasemdir. Þannig hafði engin kostnaðaráætlun verið gerð þegar verkið var sett á fjárhagsáætlun og áætlunin sem síðar var lögð fram var ekki uppfærð eftir því sem verkinu vatt fram en þá hlóðst utan á það umtalsverður kostnaður.

Ekki var farið í útboð á veigamiklum verkþáttum sem fóru töluvert fram úr áætlun og vegna ófullnægjandi undirbúnings urðu tafir á uppsetningunni. Það kallaði á aðra kostnaðarliði eins og geymslugjöld og gámaleigu. Kostnaður við rennibrautina er nú kominn upp í 65 milljónir.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, forseti sveitarstjórnar, segir að nú þegar sé búið að breyta ferlum til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. „Meðal annars ráðið í starf á framkvæmdasviði sem hefur eftirlit með þessu. Ráðin funda nú einu sinni í viku en þegar þetta hófst var bara fundur mánaðarlega. Þannig að upplýsingaflæðið er betra,“ segir hún.

Fulltrúar minnihlutans gagnrýna sérstaklega að ekki hafi verið leitað samþykkis sveitarstjórnar vegna útgjalda og fjárfestinga. Þannig hafi verið farið á svig við stjórnsýslulög.

„Það eina sem við erum að gera og reyna að vinna okkar vinnu gagnvart okkar flotta sveitarfélagi er það, að menn fari bara eftir þeim lögum og reglum sem um framkvæmdir gilda. Það er ljóst að það hefur ekki verið gert,“ segir Bergur Elías Ágústsson.

Heimild: Ruv.is