Home Fréttir Í fréttum Hættir við hótel í hjarta Nuuk vegna mótmæla

Hættir við hótel í hjarta Nuuk vegna mótmæla

192
0
Hótelinu var ætlað að rísa skammt frá Þjóðminjasafni Grænlands. Mynd/Berjay Land Berhad

Aðaleigandi Icelandair Hotels, malasíska hótelkeðjan Berjaya Corporation Berhad, hefur fallið frá áformum sínum um að reisa lúxushótel víð Nýlenduhöfn í Nuuk.

<>

Ástæðan er hávær mótmæli heimamanna gegn staðsetningunni í gamla bæjarhluta höfuðstaðar Grænlands, að því er fram kemur í Sermitsiaq.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga gott samstarf við heimamenn í Nuuk. Það hafa margir mótmælt hótelverkefninu og við virðum það.

Við höfum þessvegna óskað eftir því við bæjarfélagið að það finni annan stað þar sem við getum byggt lúxushótel,“ segir talsmaður hótelkeðjunnar, Alex Tan Ghee Keong, í viðtali við grænlenska miðilinn.

Nýi og gamli tíminn í Nuuk. Þjóðminjasafn Grænlands er í neðstu húsunum. Ofar má sjá nýleg ibúðarhús.
Friðrik Þór Halldórsson

„Við höfum áhuga á því að koma okkur fyrir á Grænlandi og ég er sannfærður um að með okkar stóra tengslaneti í löndum Asíu getum við kynnt grænlenska menningu og laðað fjölda ferðamanna til landsins,“ útskýrir fulltrúi hótelrisans.

Elsti bæjarhluti Nuuk er við Nýlenduhöfn. Hótelið átti að rísa við byggingar Þjóðminjasafns Grænlands, sem sjá má neðst, við fánastöngina.
Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Bæjaryfirvöld eru þegar byrjuð að leita að nýjum stað og vonast til að geta kynnt hinum malasískum fjárfestum nýja lóð í janúar.

„Við höfum náttúrulega áhuga á að vera nálægt bæði Godthåbsfirði og bæjarkjarnanum. Það er mikilvægt að við séum staðsett í göngufæri við miðbæinn,“ segir Alex Tan.

Hótelbyggingin var teiknuð sem þríhyrningur á landfyllingu við Nýlenduhöfn.
Mynd/Berjay Land Berhad.

Hann segir þetta þýða að arkitektarnir verði að byrja upp á nýtt svo hótelið falli að nýju umhverfi. Enn sé þó fyrirhugað að hótelið verði með um eitthundrað herbergi og veitingastað.

Heimild: Visir.is