Home Fréttir Í fréttum Ístak undirritar verksamning um smíði stærsta skóla Grænlands

Ístak undirritar verksamning um smíði stærsta skóla Grænlands

175
0
Skólabyggingin verður samtals sextán þúsund fermetrar að stærð. Teikning/Ístak

Ístak skrifaði nú síðdegis í Nuuk undir ellefu milljarða króna samning um hönnun og smíði stærsta skóla Grænlands, sem jafnframt verður menningarmiðstöð.

<>

Þetta er einn stærsti verksamningur í sögu fyrirtækisins og jafnast á við samning þess um smíði Búðarhálsvirkjunar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Byggingin rís við aðalgötuna í Nuuk, við hlið Hótels Hans Egede, en skammt frá eru einnig aðalverslunarmiðstöð bæjarins og skrifstofur landsstjórnar Grænlands.

Verksamningurinn hljóðar upp á 615 milljónir danskra króna eða ellefu milljarða íslenskra.

Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, og Charlotte Ludvigsen, borgarstjóri sveitarfélagsins Sermersooq, sem Nuuk tilheyrir, takast í hendur að lokinni undirritun síðdegis í dag.
Mynd/Hermann Sigurðsson

„Þetta er bara mjög stór samningur. Það má líkja honum til dæmis við samninginn um Búðarhálsvirkjun, þegar hann var undirritaður.

Þetta er örlítið minni samningur en það en samt af þeirri stærðargráðu. Og þetta er skóli,“ segir Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks.

Ístak hefur mesta reynslu íslenskra verktaka af mannvirkjagerð á Grænlandi, allt frá árinu 1970; vann síðast að hafnargerð í Nuuk og hafði áður reist skóla og flestar virkjanir landsins.

Útlitsmynd af skólalóðinni og hluta skólans.
Mynd/Ístak.

Nýja skólabyggingin er þriggja ára verkefni og segir Karl að Ístak muni leggja áherslu á að ráða sem flesta heimamenn að smíðinni. Þegar spurt er um fjölda Íslendinga í verkinu segir hann að þeir verði færri en oft áður.
„Við mönnum þetta með yfirstjórnendum, sem eru íslenskir. En það verður eitthvað um íslenska handverksmenn líka.“

Rými verður fyrir 1.200 nemendur í grunnskólanum. Utan skólatíma nýtast húsakynnin sem menningarmiðstöð bæjarbúa.
Mynd/Ístak.

Þetta verður stærsta skólabygging landsins, samtals sextán þúsund fermetrar, og mun bæði þjóna sem leik- og grunnskóli en jafnframt sem íþrótta- og menningarmiðstöð á kvöldin og um helgar fyrir bæjarbúa, sem fá aðgang að svokölluðu hjartarými byggingarinnar og íþróttasal.

„Þannig má segja að þetta þjóni öllum bæjarbúum, bæði ungum og öldnum,“ segir Karl.

Leikskólinn verður með rými fyrir allt að 120 börn á 1.400 fermetrum.
Mynd/Ístak.

Ístak fékk verkið eftir forval og alútboð þar sem lagðir voru saman þrír þættir; verðtilboð, hönnun og útfærsla og áætlaður rekstrarkostnaður byggingarinnar í þrjátíu ár.
„Og samanlagt eru svo gefin stig. Og við unnum þetta verkefni á stigum.“

Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks. Stöð 2/Sigurjón Ólason

-Má ekki líta á þetta sem talsverða viðurkenningu fyrir ykkur?
„Mikla, finnst mér. Það er bara öflugt að fá þetta og sýnir hvað íslenskt fyrirtæki getur verið sterkt í samkeppni, ef undirbúningurinn er góður,“ svarar framkvæmdastjóri Ístaks.

Heimild: Visir.is