Home Fréttir Í fréttum Sækir um framkvæmdaleyfi fyrir vegagerð um Teigsskóg

Sækir um framkvæmdaleyfi fyrir vegagerð um Teigsskóg

217
0
Teigsskógarleiðin styttir Vestfjarðaveg um 22 kílómetra. Veglínan liggur þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og yfir Þorskafjörð með þverun á móts við Þórisstaði. Teikning/Vegagerðin.

Vegagerðin sótti í dag um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps til lagningar Vestfjarðavegar um Teigsskóg.

<>

Svo langt hefur þessi umdeilda vegagerð aldrei áður náð í undirbúningsferli, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2.

Frá eyðibýlinu Gröf við Þorskafjörð. Landeigendur þar, ásamt eigendum Hallsteinsness, hafa leitt andstöðuna gegn vegagerð um Teigsskóg.
Mynd/Egill Aðalsteinsson

Forsenda framkvæmdaleyfis er samþykkt hreppsnefndar Reykhólahrepps um miðjan október á breytingu á aðalskipulagi þess efnis að Vestfjarðavegur liggi um Teigsskóg. Skipulagsstofnun staðfesti svo aðalskipulagsbreytinguna í síðasta mánuði.

Stefnt er að því að framkvæmdaleyfið verði afgreitt á fyrsta fundi sveitarstjórnar í janúar, að sögn Tryggva Harðarsonar sveitarstjóra.

Miðað við forsögu málsins má fastlega búast við að útgáfa þess verði kærð til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Ekið niður Ódrjúgsháls til Gufufjarðar. Hallsteinsnes sést fjær en þar á nýr vegur að þvera fjörðinn.
Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Samkvæmt upplýsingum Magnúsar Vals Jóhannssonar, framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, miða áætlanir samt sem áður við að verkið verði boðið út fyrir vorið með því markmiði að framkvæmdir hefjist næsta sumar.

Þetta 7,2 milljarða króna verk er að fullu fjármagnað á samgönguáætlun, með 1.500 milljóna króna fjárveitingu á næsta ári, 2.700 milljónum króna árið 2021, 700 milljónum árið 2022 og 2.300 milljónum króna árið 2023, en þá á verkið að klárast.

Heimild: Visir.is