Home Fréttir Í fréttum Öfluðu milljarðs til að ljúka framkvæmdum félags GAMMA

Öfluðu milljarðs til að ljúka framkvæmdum félags GAMMA

185
0
Máni Atlason, framkvæmdastjóri GAMMA Capital Management hf. Mynd: Vísir/Egill

Forgangsskuldabréf að fjárhæð milljarðs króna var gefið út til að ljúka framkvæmdum á vegum Upphafs, fasteignafélags sjóðs í stýringu hjá GAMMA.

<>

Þar með segir Gamma að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins eftir skyndilega lausafjárþurrð sé lokið.

Upphaf er í eigu farfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus sem er í stýringu hjá eignarstýringarfyrirtækinu GAMMA Capital Management. Novus er einn sjóða GAMMA sem þurfti að færa verulega niður í haust eftir að eignir þeirra rýrnuðu.

Í september var sjóðsfélögum Novus tilkynnt að eigið fé sjóðsins næmi aðeins 42 milljónum króna en það hafði aðeins þremur mánuðum áður numið 3,9 milljörðum króna.

Forgangsskuldabréfið var gefið út í kjölfar þess að skuldabréfaeigendur Upphafs féllust á skilmálabreytingu á öðrum skuldum félagsins fyrr í þessum mánuði.

Í tilkynningu frá GAMMA kemur fram að fjármögnunin sé til að ljúka framkvæmdum við 277 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem félagið er með í byggingu. Áætluð verklok séu í lok næsta árs.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að Gamma hefði falið ráðgjafarfyrirtækinu Grant Thornton að ráðast í ítarlega greiningu á öllum greiðslum sem fóru af bankareikningum Upphafs og dótturfélaga þess allt frá því að það tók til starfa.

Markmiðið sé að gaumgæfa réttmæti greiðslnanna og á niðurstaðan að liggja fyrir á þessu ári.

Heimild: Visir.is