Home Fréttir Í fréttum Grófu niður á olíumengaðan jarðveg á Akranesi

Grófu niður á olíumengaðan jarðveg á Akranesi

243
0
Frá framkvæmdum á Breiðarsvæðinu síðastliðinn mánudagseftirmiðdag. Ljósm. Skessuhorn/kgk.

Vinna stendur yfir um þessar mundir við endurbætur á Breiðarsvæðinu á Akranesi. Það er fyrirtækið Íslandsgámar ehf. sem annast verkið.

<>

Í því felst meðal annars að jarðvegsskipta þarf hluta svæðisins og leggja nýtt yfirborðsefni. Í síðustu viku stöðvuðust framkvæmdir þegar grafið var niður á sökkul undan gamalli olíuuppdælingarstöð.

Þá kom einnig í ljós olíumengaður jarðvegur.

„Þessi stöð er síðan í kringum 1950. Teknar voru myndir af sökklinum og allt saman skráð áður en sökkullinn var brotinn.

Hann verður síðan fjarlægður,“ segir Þórður Guðnason hjá Íslandsgámum, í samtali við Skessuhorn á mánudag. „En þarna var líka úrgangsolía og á meðan var verið að ákveða hvað ætti að gera við olíumengaða jarðveginn hafa framkvæmdir verið stopp, í rétt rúma viku,“ segir hann.

„Til stendur að færa jarðveginn yfir á næstu lóð, gömlu olíudreifingarlóðina. Það varð niðurstaðan hjá bæjaryfirvöldum,“ segir hann.

„Það hefur hins vegar gengið hægt að fá Olíudreifingu til að taka við jarðveginum á lóðina sína, en vonandi getum við hafist handa að nýju í dag eða á morgun,“ segir Þórður Guðnason að endingu.

Heimild: Skessuhorn.is