Home Fréttir Í fréttum Tryggja verður framtíðarhagsmuni flugvallarins

Tryggja verður framtíðarhagsmuni flugvallarins

93
0
Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV

Bæjarstjórnin á Akureyri tók í vikunni til meðferðar tillögu um breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar. Verktaki sem á lóðirnar vill reisa allt að fimm 6-11 hæða fjölbýlishús. Ef af byggingunni verður gæti það haft áhrif á aðflug að Akureyrarflugvelli.

<>

Í núgildandi aðal- og rammaskipulagi fyrir Oddeyri er heimilt að byggja þriggja til fjögurra hæða hús á reitnum. Tillagan felur í sér að honum verði breytt í svokallaðan þróunarreit. Með þeirri breytingu verður leyfilegt að reisa hærri byggingar.

Aðalskipulag fyrir Akureyrarbæ var samþykkt í fyrra. Fyrirhugaðar byggingar yrðu allt að ellefu hæðir og um 35 metrar á hæð. Húsin myndu ekki ná inn á hindrunarflöt flugvallarins.

„Mínar áhyggjur snúa fyrst og fremst að framtíðarhagsmunum flugvallarins. Ef við horfum áratugina fram í tímann.

Hvort að það geti orðið framtíðarbreytingar í aðflugsmálum og annað sem slíkar hindranir eins og þetta há bygging á lokastefnu, eina sjómílu frá brautarenda,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðaustur kjördæmi.

Tekið tillit til skemmtiferðaskipa í aðflugi
Fjöldi skemmtiferðaskipa leggst að Oddeyrarbryggju á hverju ári. Mörg hver eru það há að þau hafa áhrif á aðflug þar sem þau liggja við bryggju í flugstefnu flugvéla.

Við slíkar aðstæður er flugvélum gert viðvart um að hátt skip sé í lokastefnu þeirra.
„Þau allra stærstu sem við höfum verið að sjá og koma til Akureyrar hafa verið um 60 metra há.

Þau fara klárlega upp í þennan svokallaða hindrunarflöt flugvallarins. Hérna erum við kannski að tala um byggingu sem gæti verið 35 metrar að mér sýnist,“ segir Njáll.

Enn á frumstigi
Í skipulagslýsingunni kemur fram að Akureyrarbær ætli að óska eftir umsögn frá Isavia vegna breytingar á aðalskipulaginu. Njáll segir málið enn á frumstigi og taka þurfi efnislega á því með framtíðarhagsmuni flugvallarins að leiðarljósi.

„Þetta er svolítið annað en við höfum séð á Oddeyrinni hingað til. Ég held að við eigum alltaf að gæta þess að fara varlega í skipulagsmálum því við erum náttúrulega að huga að einhverju til margra áratuga eða hundrað ára.

Þannig að við skulum reyna að halda okkar fallega bæ sem fallegustum til lengri tíma,“ segir Njáll.

Heimild: Ruv.is