Home Fréttir Í fréttum Byggt og byggt á Hvolsvelli

Byggt og byggt á Hvolsvelli

172
0
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra. Mynd: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sjaldan eða aldrei hefur verið byggt eins mikið af íbúðarhúsnæði á Hvolsvelli eins og um þessar mundir því þar rísa ný hverfi eins og hendi væri veifað.

<>

Hvolsvöllur tilheyrir sveitarfélaginu Rangárþingi eystra en þá er verið að tala um sveitirnar þar í kring eins og Fljótshlíð, Landeyjarnar og Eyjafjöllin. Alls staðar er verið að byggja í sveitarfélaginu en þó hvergi eins mikið og á Hvolsvelli, þar hafa risið ný hverfi og íbúum fjölgar stöðugt.

„Það er bara að fjölga hjá okkur íbúum og fólk vill búa hjá okkur sem er hið besta mál og mikið byggt þessa dagana. Það eru um 30 byggingar í byggingu og svo erum við að plana ný hverfi með fjöldann allan af fjölbreyttu íbúðarhúsnæði. Við erum gríðarlega ánægð með þetta og að sjálfsögðu bjóðum við fólk velkomið til okkar á Hvolsvöll, hér er gott að vera“, segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri.

En hvað er það við Hvolsvöll sem er svona gott að fólk flykkist þangað til að eiga heima?

„Við höfum bara ýmislegt að bjóða eins og næga atvinnu, gott umhverfi, góða umgjörð og góða skóla. Það er alls lags fólk að flytja til okkar, fólk sem er að koma að vinna hjá okkur, mikið náttúrulega í tengslum við ferðaþjónustu og ungt fólk er að flytja til baka eftir nám, já, það er bara bjart framundan“.

En hvað með íbúðaverð á Hvolsvelli?

„Það hefur náttúrulega hækkað talsvert á undanförnum árum, sem er bæði gott og slæmt en ég held að við séum á pari við það sem gengur og gerist á Suðurlandi“, segir Anton Kári og bætir við. „Það er gríðarlega skemmtilegt að vera sveitarstjóri í svona sveitarfélagi og ekki síður krefjandi þegar næg verkefni eru til staðar og gaman að vera til“.

Íbúar á Hvolsvelli eru um 1950 í dag en Anton Kári vonast til að þeir verði orðnir um tvö þúsund fljótlega á nýju ári.

Heimild: Visir.is