Home Fréttir Í fréttum Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveg sem göngugötu

Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveg sem göngugötu

155
0
Mynd: Reykjavik.is

Göngugötur efla samskipti og auka lífsgæði borgarbúa. Tillaga að fyrsta áfanga að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn sem göngugötu, var samþykkt í auglýsingu í skipulags- og samgönguráði og fer hún fyrir borgarráð á morgun, 26. september.

<>

Í tillögunni felst að hlutar Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs verða gerðir að varanlegum göngugötum. Samhliða því verður unnið að hönnun ýmissa lausna til að bæta göturnar og umhverfið.

Allt yfirborð, gróður, götugögn og lýsing verður endurnýjað en hönnun svæðisins verður unnin af Arkís arkitektum í samstarfi við Landhönnun.

Fyrsti áfangi sem nú er í deiliskipulags- og forhönnunarferli er Laugavegur á milli Klapparstígs og Ingólfsstrætis og Skólavörðustígur á milli Bergstaðastrætis og Laugavegar. Gert er ráð fyrir að deiliskipulagið verði afgreitt á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020.

Í dag var einnig samþykkt tillaga um að Laugavegur frá Klapparstíg að Ingólfsstræti, Skólavörðustígur frá Bergstaðastræti að Laugavegi og Bankastræti frá Skólavörðustíg að Þingholtsstræti verði áfram göngugötur í vetur eða frá 1.október 2019 til 1. maí 2020.

Þessar götur verða opnar fyrir akstur vegna vöruafgreiðslu kl. 07.00 til 11.00 virka daga og kl. 08.00 til 11.00 á laugardögum á tímabilinu. Önnur umferð ökutækja er óheimil á svæðinu á göngugötutímabilinu og allar bifreiðastöður einnig óheimilar.

Heildstæð götumynd og opið almenningsrými
Mikið líf hefur skapast á Laugaveginum síðustu misseri þar sem takmarkanir á bílaumferð hafa gert gangandi og hjólandi umferð hærra undir höfði.

Með umbreytingu og endurhönnun Laugavegar er markmiðið að glæða götuna enn meira lífi með því að veita gangandi og hjólandi vegfarendum aukið rými í götunni frá því sem nú er.

Lögð verður áhersla á að bæta umhverfi götunnar, skapa heildstæða götumynd, tryggja skilyrði fyrir fjölbreytta ferðamáta og opin almenningsrými.. Við hönnun og skipulag gatnanna verður tekið mið af stefnu um gæði í manngerðu umhverfi.

Við hönnun göturýmisins skal haft í huga að niðurröðun trjáa, ljósastólpa og götugagna hindri ekki gott flæði gangandi vegfarenda, umferðar vegna neyðaraksturs og aðfanga og stórra hópa sem fara um göturýmið t.d. í stórum hópgöngum.

Allt yfirborð og götugögn skulu valin af kostgæfni og hæfa göngusvæði í miðborg. Lýsing skal vera þægileg, listræn, stuðla að öryggistilfinningu og vera án glýju eða til óþæginda á efri hæðum bygginga.

Alls 742 stæði í bílahúsum
Almennt er gert ráð fyrir að þeir vegfarendur sem koma akandi að svæðinu leggi bifreiðum í bílahúsum sem eru næst göngugötunni, það er í Traðarkoti og Bergsstöðum en einnig eru Stjörnuport og Vitatorg ekki langt frá. Samtals eru 742 stæði í bílahúsum í grenndinni.

Bílastæðum fyrir hreyfihamlaða verður fjölgað í hliðargötum við göngugötuna.
Sýnt hefur verið fram á að með þessari breytingu má skapa betra verslunarumhverfi og koma til móts við nýjar áskoranir í verslun þar sem upplifun og þjónusta eru stór þáttur.

Gangandi vegfarendur fá betri hljóðvist á öllu svæðinu, minni mengun auk þess sem aðgengi fyrir alla er betrumbætt.

Að breyta götum á svæðinu í göngugötur og færa þar með umferð akandi og bílastæði frá götunum er talið hafa margvísleg jákvæð umhverfisáhrif. Göngugötur eru sá áfangastaður borga sem flestir heimsækja til þess að dvelja á og eykur það mannlíf allan sólarhringinn og bætir upplifun.

Göngugötur efla samskipti og auka lífsgæði borgarbúa en reynslan hefur sýnt að íbúar borga vilja göngugötu í miðborgum og að verslun hefur aukist við göngugötuvæðingu. Endurnýjun yfirborðs, götutré, götugögn og götulýsing hafa jákvæð áhrif á umhverfið og ásýnd þess því heildaryfirbragð svæðisins styrkist og göturnar verða meira aðlaðandi.

Arkís, Landhönnun og Verkís
Tillaga Arkís, Landhönnunar og Verkís var valin vinningstillaga í samkeppni 2014 og þótti tillagan sýna góða og sannfærandi útfærslu, þar sem efnisval var gott og hugmyndir vel útfærðar. Samþykkt hefur verið í skipulags- og samgönguráði að vinna áfram með skipulagsvinnu og forhönnun í samræmi við þrískipta áfangaskiptingu.

Deiliskipulag þetta nær yfir fyrsta áfanga og verður í auglýsingu í sex vikur.

Heimild: Reykjavíkurborg