Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar við jarðstrengslagnir Landsnets á Suðurlandi

Framkvæmdir hafnar við jarðstrengslagnir Landsnets á Suðurlandi

232
0
Landsnet hf

Framkvæmdir eru hafnar við lagningu tveggja 66 kV jarðstrengja Landsnets á Suðurlandi, Selfosslínu 3 og Hellulínu 2. Strengirnir eru samtals um 41 km að lengd og auka bæði flutningsgetu og afhendingaröryggi raforku á Suðurlandi en ráðgert er að spennusetja þá síðar á árinu.

<>

Að undangengnu útboðsferli samdi Landsnet í nóvember 2014 við fyrirtækið NKT Cables um framleiðslu og flutning jarðstrengjanna til Íslands, ásamt eftirliti með lagningu þeirra, tengingum og prófunum en undirverktaki NKT Cables hérlendis er fyrirtækið Orkuvirki. Samningurinn hljóðaði upp á um 2,5 milljónir evra og komu strengirnir til landsins í byrjun maí.

Kostnaður við jarðvinnu og lagningu tæpar 600 milljónir króna
Jarðvinna og lagning strengjanna tveggja var boðin út í tvennu lagi. Samið var við Ingileif Jónsson ehf. og IJ Landtak ehf. um jarðvinnu og lagningu Selfosslínu 3 en við Þjótanda ehf. um jarðvinnu og lagningu Hellulínu 2. Samningsupphæðin vegna Hellulínu 2 er um 214 milljónir króna en um 364 milljónir króna vegna Selfosslínu 3.

Selfosslína 3 er ný 28 km löng jarðstrengstenging milli Selfoss og Þorlákshafnar og mun hún auka afhendingaröryggi raforku í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi. Framkvæmdir við strenglagninguna hófust við tengivirki Landsnets við Þorlákshöfn 29. maí og er nú unnið þar að greftri og fleygun. Gert er ráð fyrir að strengurinn verði spennusettur í nóvember.

Hellulína 2 er ný 13 km löng jarðstrengstenging milli Hellu og Hvolsvallar sem mun leysa af hólmi núverandi loftlínu, sem er frá árinu 1948 og þarfnast endurnýjunar. Framkvæmdir hófust 19. maí við Hellu og hafa nú þegar verið lagðir tæpir 2 km af jarðstreng. Áætlað er að strengurinn verði spennusettur í september.

Samhliða þessum framkvæmdunum verður í haust unnið að nauðsynlegum breytingum í tengivirkjunum á Hellu, Hvolsvelli, Selfossi og í Þorlákshöfn.

Heimild: Landsnet