Home Fréttir Í fréttum Ný byggð rís við Sigtún í Reykjavík

Ný byggð rís við Sigtún í Reykjavík

180
0
Sigtún. Myndir frá Atelier arkitektum

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Sigtún 38 og 40. Um er ræða lóðina sem Grand Hótel stendur á og gömlu Blómavalslóðina. Samkvæmt deiliskipulaginu verður heimilt að byggja níu hæða byggingu við hótelið en til stendur að fjölga herbergjum og stækka ráðstefnusali þess á lóðinni númer 38. Á Blómavalslóðinni númer 40 verður heimilt að byggja allt að 120 íbúðir.

<>

Samkvæmt deiliskipulaginu verður unnið með svæðið sem eina skipulagsheild og haft að leiðarljósi að tvinna það saman og aðlaga vel að nærliggjandi byggð.

Nýjar byggingar á lóðinni við Sigtún 40 verða sex og verða þær af mismunandi stærðum og hæðum umhverfis myndarlegt og skjólgott garðsvæði.  Á þann hátt  fléttast byggðin inn í byggðamynstur nærliggjandi byggðar. Byggingar við Sigtún verða lágreistar þannig að þær falli vel að götumyndinni og núverandi byggð handan götunnar. Byggingar hækka síðan á móti Engjateig til suðurs og hæsta hluta núverandi bygginga við Sigtún 38.

Áfangaskipting uppbyggingar verður þannig að hefja skal uppbyggingu íbúðabyggðar á lóðinni númer 40 en síðar verði ráðist í stækkun hótelsins á lóðinni númer 38. Heimilt er að gera nauðsynlegar framkvæmdir á lóðinni númer 38 til að auðvelda uppbyggingu íbúðabyggðarinnar.

Á reitnum verða byggðar 120 íbúðir í ýmsum stærðum.  Klæðningar bygginga verða í jarðlitum og notað verður kvars eða steinsalli í anda húsanna í Teigahverfi.  Æskilegt er að slétt þök verði þakin grasi en notast verður við visthæfar lausnir í uppbyggingunni samkvæmt  Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 – 2030.

Myndirnar sem fylgja fréttinni eru unnar af Atelier arkitektum sem unnu deiliskipulagið.  Þær sýna ekki lokaútlit bygginga.

Hægt að skila inn athugasemdum við deiliskipulagið til 10. júlí næstkomandi.

Hér er hægt að skoða uppdrætti af deilisskipulaginu fyrir Sigtún 38 og 40.

Heimild: Reykjavíkurborg