Hvað felst í samgönguáætluninni?
Í nýrri samgönguáætlun sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, hefur lagt fyrir Alþingi kemur fram stefna stjórnvalda í samgöngumálum á næstu 15 árum, frá 2019 til 2033. Þar kemur einnig fram aðgerðaáætlun til næstu fimm ára, til ársins 2023.
Í samgönguáætlun Sigurðar Inga er fjallað um uppbyggingu innviða á öllum sviðum samgangna; Vegakerfi, flugvöllum, höfnum og almenningssamgöngum. Ávinningur þessarar áætlunar á að vera aukið öryggi, stytting vegalengda og efling atvinnusvæða utan höfuðborgarsvæðisins.
Ráðherra er skylt að leggja fram áætlun sem þessa á þriggja ára fresti. Í fyrsta sinn í ár var áætlunin lögð fram í samræmi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þess vegna hefur fyrsti áfangi áætlunarinnar verið fjármagnaður að fullu.
Meðal umdeildari tillagna sem finna má í samgönguáætluninni eru fyrirhuguð gjaldtaka á vegum; Veggjöldin.
Hvers vegna er lagt til að veggjöld verði innheimt?
Á næstu árum er búist við að tekjur ríkisins af sérstökum gjöldum sem lögð eru á eldsneyti muni lækka vegna aukinnar hlutdeildar endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum, það eru fleiri rafmagnsbílar og tengiltvinnbílar.
Tekjurnar sem ríkið hefur af eldsneytis- og akstursgjöldum hafa að jafnaði staðið undir 60-75 prósent af þeim fjárveitingum sem renna til Vegagerðarinnar ár hvert. Gert er ráð fyrir að upphæðin verði allt að helmingi lægri árið 2025. Ríkið þarf þess vegna að finna aðra leið til þess að fjármagna viðhald og uppbyggingu vegakerfisins.
Þörf þess að ráðast hratt í framkvæmdir – endurbætur og uppbyggingu – á ákveðnum leiðum er talin mjög brýn, ekki síst til þess að auka umferðaröryggi. Fjármögnun með veggjöldum er einnig lögð til svo hægt verði að ráðast í framkvæmdirnar strax.
Hvar verða veggjöld sett á?
Samgönguráðherra hefur helst talað um þrjá samgönguása í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Fyrsti ásinn er Reykjanesbrautin sem á að tvöfalda alla leið inn á höfuðborgarsvæðið og að Keflavíkurflugvelli. Annar ásinn er Suðurlandsvegur inn í höfuðborgina og austur á Selfoss. Og þriðji ásinn er Vesturlandsvegur inn í Höfuðborgina úr Borgarnesi. Á seinni tveimur ásunum verður fyrst lögð áhersla á að aðskilja akstursstefnur á þjóðveginum.
Á þriðja ásnum hefur jafnvel verið talað um að ráðist verði í framkvæmdir við Sundabraut. Brautin mundi þá liggja yfir Kleppsvík, Gufunes og upp á Kjalarnes yfir Kollafjörð og verða fjármögnuð með svipuðum hætti og Hvalfjarðargöngin, í sérstöku hlutafélagi.
Sigurður Ingi hefur einnig talað um að framkvæmdir úti á landi verði gerðar með þessum hætti. Hefur hann nefnt veg yfir Hornarfjarðarfljót og Axarveg í þessu sambandi.
Miðað við tillögurnar er gert ráð fyrir að veggjöld verði aðeins lögð á þessa ný gerðu vegi, en ekki aðrar leiðir.
Starfshópur samgönguráðherra skilar skýrslu sinni um miðjan þennan mánuð og þar verða nákvæmari staðsetningar, framkvæmdir og útfærslur tíundaðar.
Hvernig verður nýjum vegaframkvæmdum háttað?
Ef Alþingi leggur blessun sína yfir fyrirætlanir ráðherra þá mun ríkið stofna hlutafélag utan um fjármögnun framkvæmdanna. Hlutafélagið taki lán sem renni í framkvæmdasjóð fyrir Vegagerðina. Þegar framkvæmdum er lokið verði afborganir af láninu greiddar með tekjum af veggjöldum.
Sigurður Ingi samgönguráðherra sagði í samtali við fréttastofu fyrir jól að ríkinu bjóðist mjög hagkvæm lánskjör. Það sé hins vegar óútfært hvernig lántökunni verði háttað. Starfshópur ráðherra hefur það til umsagnar.
„Lífeyrissjóðir hafa boðið sig fram til að koma inn í þetta og jafnvel norrænir bankar, eins og Norræni fjárfestingarbankinn og mun fleiri,“ sagði Sigurður Ingi. Fyrst og fremst sé leitað að hagkvæmu og skynsömu fjármagni í þetta verkefni. „[…] við þurfum líka að horfa á efnahagslegu áhrifin og áhrif á fjárreiður ríkisins. Þetta er útfærsla sem mun taka einhverja mánuði á nýju ári.“
Hversu há verða veggjöld?
Gera má ráð fyrir að veggjöldin eigi eftir að taka mið af lánunum sem tekin verða fyrir framkvæmdunum. Engar sérstakar upphæðir hafa verið ákveðnar. Nokkrar leiðir hafa verið nefndar í skýrslum stjórnvalda um gjaldheimtu á vegum. Hægt er að innheimta í samræmi við þá vegalengd sem ekin er. Það er gert víða í Evrópu. Þá er hægt að innheimta fyrirfram ákveðið gjald þegar ekið er í gegnum veghlið, svo eitthvað sé nefnt.
Félag Íslenskra bifreiðareigenda hefur lýst andstöðu sinni við veggjaldahugmyndir, segja rekstur slíkra kerfa of dýran og að opinberar álögur á bifreiðareigendur verði of miklar með þessum áformum.
Hvernig verða veggjöldin innheimt?
Það er enn óútfært af hálfu ríkisins hvernig veggjöld verða innheimt. Miklar tækniframfarir hafa orðið á undanförnum árum sem gera gjaldheimtuna skilvirkari með rafrænum hætti. Búast má við að ekki verði sett upp gjaldhlið eins og í Hvalfjarðargöngunum. Heldur verði gjaldheimtan alveg rafræn og hafi takmarkaða áhrif á umferðarhraða.
Nánari útlistun á því hvernig þessu verður háttað er að vænta í skýrslu starfshóps ráðherra um þessi mál.
Hvenær verða veggjöldin innheimt?
Veggjöldin verða ekki innheimt fyrr en að framkvæmdum loknum. Samkvæmt tímalínunni sem stjórnvöld vinna eftir er gert ráð fyrir að útboð verkefna hefjist á þessu ári 2019, framkvæmdir hefjist á næsta ári 2020 og að framkvæmdum sé lokið árið 2024. Gjaldtakan hefst þá ekki fyrr en um miðjan næsta áratug.
Tímalínunni er stillt upp á þennan hátt til þess að hægt verði að mæta tekjumissi ríkissjóðs af innheimtu eldsneytis- og akstursgjalda. Spár um þróun bílaflotans á Íslandi gera ráð fyrir mikilli fækkun bíla sem knúnir eru með hefðbundnum og mengandi orkugjöfum á þriðja áratug þessarar aldar.
Enn eru ekki öll kurl komin til grafar og beðið er eftir að starfshópur ráðherra skili af sér nánari útlistun á áformum um veggjöldin.