Jarðvinnan er til komin vegna uppsetningar á aðflugsbúnaði á Akureyrarflugvelli. Leitað var eftir tilboðum í verkið frá fimm fyrirtækjum, en hvergi var auglýst opinberlega.
Tveimur tilboðum var skilað inn og hefur verið ákveðið að taka því lægra.
Tilboðið, sem kom frá Túnþökusölunni Nesbræðrum, hljóðaði upp á 82 milljónir króna auk virðisaukaskatts.
Verkið ekki útboðsskylt
Samkvæmt lögum skulu opinberir aðilar bjóða út öll verk yfir 49 milljónum króna. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er félagið undanskilið þessu ákvæði.
Þess í stað falli Isavia undir reglugerð 340/2017, um aðila sem annist vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Samkvæmt þeirri reglugerð skal bjóða út verk sem eru yfir 805 milljónum króna, en viðmiðunarfjárhæð vegna verkframkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eru 720 milljónir króna.
„Það þýðir að framkvæmdin er ekki útboðsskyld samkvæmt innkaupalögum,“ segir í svari Isavia. Þrátt fyrir þetta hafi verið ákveðið að gera verðkönnun og leita til fimm aðila.
Segir faglegra að allir fái að gera tilboð
Nokkrir stórir verktakar á Akureyri eru reiðir yfir þessu verklagi og telja að þeir hafi verið sniðgengnir.
Í þeim hópi eru G. Hjálmarsson, Finnur ehf. og Árni Helgason.
Hjálmar Guðmundsson, verkefnastjóri hjá G. Hjálmarssyni, segir að þessi vinnubrögð Isavia séu mjög undarleg. „Það er skrítið að þetta hafi ekki farið í auglýsingu og mönnum gefinn kostur á að skila tölu í svona samning, sem er um og yfir 100 milljónir,“ segir Hjálmar.
Byggingarfyrirtæki boðið að gera tilboð í jarðvinnu
Þrátt fyrir að verkið sé ekki útboðsskylt samkvæmt lögum, segir Hjálmar faglegra að gefa sem flestum tækifæri til að gera tilboð.
Hann vill svör við því hvers vegna þessi fimm fyrirtæki voru valin til að gera tilboð, en ekki önnur. „Þeir segja að það hafi verið fagaðili sem valdi, en hann velur malbikunarfyrirtæki og byggingaraðila sem skýtur skökku við í svona jarðvinnuverkefni,“ segir Hjálmar.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, gat ekki veitt svör við því hvers vegna var leitað til þessara fyrirtækja, en fyrir því væru fagleg sjónarmið.
„Það er almenn samstaða meðal verktaka hérna að skoða þetta nánar. Það er ósk okkar að það verði fallið frá þessu og þetta auglýst, þannig að þeim sé gefinn kostur að bjóða í sem vilja,“ segir Hjálmar.
Hann segir að G. Hjálmarsson hafi fengið síðustu tvö jarðvinnuverkefni sem hafi verið boðin út á svæðinu. „Það er skrítið að 40 ára gamalt jarðvinnufyrirtæki fái ekki tækifæri hjá hinu opinbera til að bjóða í jarðvinnuverkefni svo milljónatugum skipti,“ segir hann.
Heimild: Ruv.is