Home Fréttir Í fréttum Nýr og umdeildur leikskóli rís á Þórshöfn

Nýr og umdeildur leikskóli rís á Þórshöfn

258
0
Mynd: Ruv.is
Nú standa yfir framkvæmdir við nýjan leikskóla á Þórshöfn. Bygging skólans var afar umdeild en ekki var einhugur um hvar hann ætti að standa. Leikskólastjórinn fagnar nýjum leikskóla en segist hafa viljað aðra staðsetningu.

Hamarshöggin dynja þessar vikurnar frá byggingarsvæði nýs leikskóla á Þórshöfn. Skólinn leysir úr brýnni þörf, en núverandi leikskóli hefur verið starfræktur í tveimur húsum sem bæði eru gömul og of lítil.

<>

Verkefnið stór hluti af árstekjum sveitarfélagsins

En ný bygging kostar sitt og Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir verkefnið kosta á þriðja hundrað milljónir króna.

„Þannig að þetta er ansi stór biti fyrir þetta litla sveitarfélag. Þetta er stór hluti af tekjum ársins.

En hinsvegar höfum við náð, á undanförnum árum, árangri í að endurskipuleggja okkur peningalega þannig að þetta er ekki þannig að þetta muni ríða okkur á neinn hátt að fullu.“

Miklar deilur um hvar leikskólinn skyldi byggður

Það voru miklar deilur um þessa framkvæmd í samfélaginu og fólk var alls ekki sammála um það hvar átti að byggja leikskólann.

„Það urðu mikil átök já og voru hérna mjög deildar meiningar um það hvar leikskólinn ætti að vera og hefur verið lögð í það mikil vinna nokkur undanfarin ár að greina það og finna út úr.“

Starfsfókið vildi aðra staðsetningu

Ákvörðun hafði á sínum tíma verið tekin um að byggja nýjan leikskóla við hlið grunnskólans á Þórshöfn.

En núverandi meirihluti sveitarstjórnar ákvað hins vegar að byggt skyldi á lóð gamla leikskólans. Halldóra J. Friðbergsdóttir, leikskólastjóri, var á öndverðum meiði.

„Já, starfsfólkið var alveg sammála um það að það vildi nota tækifærið og byggja við grunnskólann og vera þar upp frá,“ segir hún. „

Fá svolítið stærri vinnustað og meiri faglega umræðu.“

Fagna nýjum leikskóla og betri aðstöðu

En þrátt fyrir það segir hún starfsfólkið ekki fara ósátt inn í þetta nýja hús. „Nei, nei, svo bara sættir maður sig við það að maður hafði ekki betur.

Þannig að við fögnum bara því að við séum að fá nýjan leikskóla og bætta aðstöðu, gerum bara best úr því. Og vonandi verður þá bara líka lóðin löguð og annað sem við vitum að er að hér niður frá.“

Heimild: Ruv.is