Home Fréttir Í fréttum Ríkið hefur stefnt Seltjarnarnesbæ vegna kostnaðar við nýtt læknaminjasafn

Ríkið hefur stefnt Seltjarnarnesbæ vegna kostnaðar við nýtt læknaminjasafn

329
0
Mynd: Nýtt Læknaminjasafn
Ríkið hefur stefnt Seltjarnarnesbæ vegna kostnaðar við nýtt læknaminjasafn. Ríki og sveitarfélag standa stál í stál en málið verður útkljáð fyrir dómstólum fyrir áramót.
Húsið sem átti að hýsa safnið hefur staðið autt í átta ár. Bæjarstjóri vill auglýsa það til sölu.
Fram kom í Speglinum í gær að húsið liggi undir skemmdum og að Seltjarnarnesbær hafi hætt við að nota það undir lækningaminjar.

„Auðvitað er aldrei gott þegar svona fallegt hús stendur autt,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

<>

Áætlað sé að kostnaður við að klára húsið sé á milli 400 og 500 milljóna króna, sem sé einfaldlega of há fjárhæð. „Bærinn á þær ekki.“

Byggingarkostnaður verulega vanmetinn

Árið 2007 var gerður samningur milli ríkisins, bæjarins, Þjóðminjasafnsins og tveggja læknafélaga um byggingu og rekstur Læknaminjasafns í húsinu, og var fyrsta skóflustunga tekin í september 2008.

Ári seinna var ljóst að byggingarkostnaður hafði verið verulega vanmetinn og bærinn taldi forsendur samningsins brostnar, segir í skýrslu ríkisendurskoðunar.

Árið 2012 sagði bærinn sig frá samningnum og lagði safnið niður.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur reynt að innheimta af bænum fé sem ríkið lagði til safnsins, sjötíu og fimm milljónir, en án árangurs.

Ríki og sveitarfélag standa stál í stál en málið verður útkljáð fyrir dómstólum fyrir áramót.

 Ásgerður Halldórsdóttir  Mynd: Ruv.is

Óréttmæt krafa af hálfu ríkisins

Ásgerður telur að þessi krafa ríkisins eigi ekki rétt á sér. „Krafan hljóðar um að við eigum að greiða til baka vegna þess að við höfum breytt notkun á húsinu.

Það er bara ekkert í húsinu. Það hefur bara staðið autt og eins og ég segi er ég búin að vera að skrifa ráðuneytunum í gegnum árin og óska eftir samstarfi og bíð enn eftir að fá niðurstöður úr því.“ Það sé ekki bæjarins að borga ríkinu til baka.

Sjálf vilji hún auglýsa húsið til sölu. „Ætli það sé ekki bara næsta skref að við auglýsum það og sjáum hvaða áhugasömu aðilar vilji taka yfir þessa byggingu.“

Hefði það ekki þurft að gerast fyrr?
„Nei, við höfum viljað að þetta hús væri nýtt sem safnahús í samstarfi við ríkið.“ Hún hafi talað við fimm menntamálaráðherra vegna hússins án þess að lausn finnist á málinu.

Erfitt að horfa upp á húsið standa autt

„Það er er erfitt að horfa upp á fyrsta höfundaverk sitt verða skemmdum að bráð, standa svona óhreyft og ekki í neinni notkun,“ segir Sólveig Berg, arkítekt við verkefnið. „Það er erfitt að horfa upp á það.“

„Þetta húsnæði auðvitað, með tíð og tíma fer það mjög illa. Það er ekkert viðhald á því, ekki neitt,“ segir Ásdís Helga Ágústsdóttir arkítekt, sem kom líka að hönnun hússins. „Þetta er bara tækifæri sem okkur finnst þau vera að glata.“

Mynd með færslu
 Mynd: Byggingu hússins lauk aldrei.
Heimild: Ruv.is