Home Fréttir Í fréttum Erlendum verkamönnum vísað af framkvæmdasvæði

Erlendum verkamönnum vísað af framkvæmdasvæði

274
0
Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Vinnustaðaeftirlit ASÍ vísaði tveimur erlendum verkamönnum af byggingarsvæði Bjargs íbúðafélags í morgun þar sem þeir voru ekki komnir með íslenska kennitölu. Mennirnir voru í vinnu hjá undirverktaka á svæðinu.

Upp komst um málið við reglubundið eftirlit í morgun þegar vinnueftirlit ASÍ heimsótti framkvæmdasvæði íbúðafélagsins í Grafarvogi og Úlfarsárdal.

<>

Mennirnir voru að vinna fyrir undirverktaka á svæðinu í Grafarvogi en framkvæmdin þar er í höndum Íslenskra aðalverktaka.

„Þar reyndust vera tveir sem ekki voru með kennitölu og þeim var bara vísað út af vinnustaðnum,“ segir Þorbjörn Guðmundsson hjá vinnustaðaeftirliti ASÍ.

Íbúðafélagið var stofnað af ASÍ og BSRB en Þorbjörn segir sjaldgæft að eftirlitið þurfi að grípa til slíkra ráðstafana.

„Það má segja að við séum að ganga aðeins harðar eftir því að þeir sem ekki eru með skilríki, að þeir hverfi.

Yfirleitt höfum við gefið þeim tækifæri á að nálgast þetta því oft gleyma menn þessu heima hjá sér og þá eru menn ekki að ganga jafn hart eftir því. En þegar menn hafa þetta ekki þá eiga þeir ekkert erindi inn á vinnustaði,“ segir Þorbjörn.

Þorbjörn segir að verktakafyrirtæki hér á landi hafi almennt stórbætt skráningu og eftirlit með erlendum verkamönnum.

„Þrátt fyrir þetta mjög vandaða eftirlitskerfi sem ÍAV er með á þessum vinnustað, þá eru þarna tveir starfsmenn sem koma inn á vegum annarra undirverktaka, þrátt fyrir það þá gerist þetta.

Allir þegar þeir mæta á morgnana, þá skrá þeir sig, þannig að það er dálítið skrítið að þetta skuli hafa sloppið í gegn,“ segir Þorbjörn.

Heimild: Ruv.is