Home Fréttir Í fréttum Nýtt sjúkrahótel mun kannski hýsa erlenda ferðamenn

Nýtt sjúkrahótel mun kannski hýsa erlenda ferðamenn

258
0
Líkur standa til að nýtt sjúkrahótel Landspítalans muni hýsa erlenda ferðamenn í bland sjúklinga spítalans og aðstandendur þeirra.
Enn er óvíst hver rekur hótelið þegar það verður opnað en stefnt er að því að bjóða út reksturinn, þvert á óskir Landspítalans.
Enn er framkvæmdum ekki lokið við hótelið en verktaki átti að afhenda húsið í gær.

„Þessi umræða hefur ítrekað komið upp að nýta hótelið fyrir aðra en sjúklinga og aðstandendur, jafnvel fyrir ferðamenn ef það eru laus herbergi. Landspítali hefur haft á því mjög sterkar skoðanir um að það fari ekki saman,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans.

<>

Ákveðið var í heilbrigðisráðuneytinu á sínum tíma að bjóða út reksturinn og að innritaðir sjúklingar myndu ekki gista á hótelinu. „Það hefur ekki verið leitað til Landspítalans sérstaklega til að reka hótelið en við höfum óskað eftir því,“ segir Guðlaug Rakel. „Það er kannski bara hugmyndin að það sé hagkvæmara að aðrir reki hótel heldur en Landspítali þar sem Landspítali hefur kannski ekki reynslu sem slíka af því að reka hótel.“

Sjúklingahótel fyrir innritaða hefði nýst betur

Samkvæmt skýrslu starfshóps um hótelið frá 2016 hefur munur á eðli og rekstri sjúkrahótela annars vegar og sjúklingahótela hins vegar ekki verið skilgreindur nægilega vel, enda eiginlegt sjúklingahótel ekki í rekstri hér á landi.

Sjúklingahótel er hótel þar sem innritaðir sjúklingar geta gist rétt eins og á öðrum deildum spítalans. Hins vegar er ekki stefnt að því að innritaðir sjúklingar verði á nýju sjúkrahóteli Landspítalans. Landspítalinn telur að sjúklingahótel, sem hefði hýst innritaða sjúklinga, hefði nýst spítalanum betur.

„Sjúkrahótelið hefur verið í umræðu mjög lengi og sitt sýnist hverjum,“ segir Guðlaug Rakel. „Við höfum ákveðna reynslu af því að blanda saman ferðamannahóteli og sjúkrahóteli og það gafst ekkert sérstaklega vel. Ég held að við verðum að byggja á þeirri reynslu.“

Framkvæmdum enn ólokið

Fyrsta skóflustungan að nýju sjúkrahóteli Landspítalans var tekin árið 2015 af þáverandi heilbrigðisráðherra.

Upphaflega stóð til að sjúkrahótelið yrði fullbyggt vorið 2017 en verklokum hefur ítrekað verið frestað.

Enn er framkvæmdum ekki lokið en verktaki átti að afhenda húsið í gær, samkvæmt upplýsingum frá Nýjum landspítala.

Veit einhver hvert rekstrarfyrikomulag hótelsins verður eins og staðan er í dag? „Hjúkrunarþjónustan verður á vegum Landspítala.

Ef farið verður í útboðið verður einhver sem gerir tilboð í það nema það verði ákveðið að Landspítali fái þessa heimild til að reka hótelið fyrstu tvö árin,“ segir Guðlaug Rakel.

Telurðu það líklegt? „Ég get ekki svarað því.“

Heimild: Ruv.is