Hluti Stopp hingað og ekki lengra hópsins hefur áformað að loka Reykjanesbrautinni í mótmælaskyni fái hann ekki svör um úrbætur á brautinni. Kveikjan að mótmælunum hafi verið banaslysið sem átti sér stað á brautinni í morgun.
Við getum bara ekki beðið lengur,“ segir Guðbergur Reynisson, einn af stofnendum Stopp hingað og ekki lengra hópsins.
Hluti hópsins hefur áformað að loka Reykjanesbraut í mótmælaskyni fái hann ekki svör um úrbætur á brautinni.
Kveikjan að mótmælunum hafi verið banaslysið sem átti sér stað á brautinni í gær.
„Við erum búin að vera að segja að það þurfi að klára þetta,“ segir Guðbergur og á þar við tvöföldun Reykjanesbrautar alla leið. Hópurinn var stofnaður fyrir tveimur árum til að þrýsta á samgönguyfirvöld.
„Þeir breyttu Reykjanesbrautinni fyrir ofan Reykjanesbæ þá. Settu tvö hringtorg og breyttu legu hættulegra gatnamóta.
Þess vegna er þetta svæði öruggara,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.
Klárað verði alla leið inn í Hvassahraun
Núverandi samgönguáætlun gerir ráð fyrir að byrjað verði að tvöfalda brautina frá Krýsuvíkurafleggjara út í Hvassahraun eftir sex ár. Verkefninu verði síðan lokið 2033.
„Ég er búinn að vera að segja að þetta sé of seint. Þetta er hættulegasti vegakaflinn fyrir utan borgarmörkin og þarna eru flest slysin, banaslysin,“ segir hann og bætir við að kaflinn frá Kaldárselshæð og niður að Völlunum sé nú kominn í áætlun.
„Okkur finnst að það þurfi að klára alla leið inn í Hvassahraun. Það verður bara að byrja á því strax, það er ekkert hægt að bíða 10 til 15 ár eftir því.“
Fara þessa leið ef ekkert er gert
Banaslysið í morgun hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Í kjölfar þess hafi hann fengið hóp fólks með sér í lið sem hyggst loka Reykjanesbrautinni í mótmælaskyni fái þau engin svör og loforð um úrbætur.
Fyrirhugað sé að ganga til verksins í þessari viku og verði það gert í samvinnu við lögreglu og viðbragðsaðila. „Við munum gera það. Við erum ekki algjörlega út úr korti,“ segir hann og vonar að ekki þurfi að grípa til þeirra ráðstafana.
„Við munum fara þessa leið ef ekkert annað gerist. Þetta er greinilega eina leiðin til að ráðamenn hlusti eða grípi í taumana,“ segir hann að lokum.
Heimild: Fréttablaðið