Home Fréttir Í fréttum Kaupa þrjú hús í stað þess að byggja knatthús

Kaupa þrjú hús í stað þess að byggja knatthús

261
0
Hafnarfjörður
Miklar deilur risu á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun. Þá var ákveðið að hætta við fyrri áform um að bærinn reisti nýtt knatthús í Kaplakrika þar sem tilboð í framkvæmdina voru um 300 milljón krónum hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þess í stað ákvað bæjarráð að kaupa íþróttahús og knatthúsin Risann og Dverginn af FH fyrir 790 milljónir króna. FH reisir svo nýja knatthúsið alfarið á eigin ábyrgð.

Aukafundur var haldinn í bæjarráði Hafnarfjarðar í morgun þar sem málið var tekið fyrir. Bæjarráðsfulltrúar og áheyrnarfulltrúar flokkanna sem eru í minnihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar mótmæltu því hvernig staðið væri að málum. Þeir töldu réttast að málið yrði rætt í bæjarstjórn þar sem allir kjörnir bæjarfulltrúar og allir flokkar sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn hafa aðkomu og atkvæðarétt. Niðurstaðan var þó sú að málum var ráðið á bæjarráðsfundi í morgun.

<>

Tilboðin mun hærri en fjárhagsáætlun

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti við gerð fjárhagsáætlunar bæjarins í ár að veita 720 milljónir króna í byggingu nýs knatthúss í Kaplakrika. Tilboðin voru öll 300 milljón krónum yfir áætlun og var þeim því öllum hafnað.

Í framhaldinu sömu bæjaryfirvöld og FH um að íþróttafélagið taki að sér að byggja, eiga og reka knatthúsið í stað þess að bærinn geri það. Bærinn kaupir þess í stað þrjú íþróttamannvirki í Kaplakrika og eignast þau að fullu, fyrir 790 milljónir króna. FH notar kaupverðið til byggingar á knatthúsinu og skuldbindur sig til að klára framkvæmdir á eigin kostnað og ábyrgð fari kostnaður fram yfir áætlun félagsins. Bærinn greiðir kaupverðið svo í áföngum samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins og eftir því hvernig framkvæmdum vindur fram.

Tillaga þessa efnis var samþykkt með þremur atkvæðum bæjarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og óháðra. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Deilt um afgreiðsluna

Fulltrúar minnihlutans voru ósáttir við hvernig staðið var að afgreiðslu málsins. Friðþjófur Helgi Karlsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, og Guðlaug Kristjánsdóttir, áheyrnarfulltrúi Bæjarlistans, lögðu fram tillögu um að vísa málinu til fundar bæjarstjórnar eftir tvær vikur. Þau sögðu eðlilegt að leiða svo stóra ákvörðun til lykta á vettvangi bæjarstjórnar þar sem allir bæjarfulltrúar hafa möguleika á að koma að afgreiðslu málsins. Sú tillaga var felld með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum minnihlutans.

Að aflokinni samþykkt tillögu um kaup á íþróttamannvirkjunum gerðu áheyrnarfulltrúar flokka í minnihluta tvær bókanir. Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins og áheyrnarfulltrúi hans í bæjarráði, sagði að samkomulagið fæli í sér stefnubreytingu frá því að bærinn ætti alfarið þau íþróttamannvirki sem hann kæmi að því að reisa. Sigurður sagði ótækt að taka þá ákvörðun í bæjarráði en ekki í fullskipaðri bæjarstjórn.

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans og áheyrnarfulltrúi hans í bæjarráði, furðaði sig á því að beiðnir minnihlutans um frestun skyldu hafa verið hunsaðar.

Heimild: Ruv.is