Búið er að eyða sprengjunni sem fannst á Blikastaðanesi í Mosfellsbæ fyrr í dag. Gröfumaðurinn sem hringdi sprengjuna inn telur að hún komi úr Faxaflóa.
Leifur Guðjónsson var við gröfuvinnu við endurnýjun lagna í Baugshlíð og hafði hann nýtekið á móti malarsendingu þegar hann rak augun í járnstykki í malarhrúgunni.
„Ég byrja að moka og sé einhvern rörbút. Ég fer og tek þetta upp með höndunum og þá er þetta bara sprengja,“ segir Leifur í samtali við Vísi sem kveðst aðspurður hafa verið brugðið.
Leifur segir að hann hafi lagt sprengjuna ofurvarlega frá sér eftir að hafa áttað sig á því hvað hann væri með höndunum.
Því næst hringdi hann í lögregluna og gætti þess að tiltaka að hann hefði fundið sprengju, í stað þess að segja að hann væri með sprengju.
Mölin kom frá Björgun og telur Leifur víst að sprengjan hafi komið úr Faxaflóa þar sem allar líkur eru á að hún hafi dvalið frá seinni heimsstyrjöldinni um miðbik síðustu aldar.
„Henni hefur verið dælt upp úr Faxaflóa. Henni hefur verið dælt upp í gegnum skip og hún hefur farið í gegnum þvott,“ segir Leifur. „Það er ótrúlegt að hún hafi ekki sprungið einhvers staðar á leiðinni.“
Lögregla og sprengjusveitin eru nú að förum á vettvangi og segir Leifur að hann muni bara halda áfram að vinna, enda ekkert annað í stöðunni. Allt hafi farið vel.
„Vonum að það sé ekki fleiri sprengjur hérna,“ segir Leifur að lokum.
Heimild: Visir.is