Home Fréttir Í fréttum Úrskurðarnefnd felldi úr gildi leyfi fyrir nýbyggingu Hafrannsóknarstofnunar

Úrskurðarnefnd felldi úr gildi leyfi fyrir nýbyggingu Hafrannsóknarstofnunar

193
0
Mynd: Vísir/Stefán Karlsson

Nýbygging Hafrannsóknarstofnunar fær ekki að rísa að Fornubúðum 5 við Suðurhöfnina í Hafnarfirði. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

<>

Nefndin felldi bæði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar og ákvörðun byggingarfulltrúa, sem fylgdi í kjölfarið 27. mars á þessu ári, að samþykkja umsókn um byggingu skrifstofu-og rannsóknarhúss fyrir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar við Fornubúðir.

Í úrskurðinum segir að ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar árið 2017 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina væri hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né aðalskipulag bæjarins.

Tveir íbúar kærðu breytinguna á deiliskipulagi

Tveir íbúar Suðurgötu í Hafnarfirði kærðu breytingu bæjarstjórnarinnar á deiliskipulagi og kröfðust þess að bæði breytingin á deiliskipulagi og byggingarleyfið yrði fellt úr gildi.

Íbúarnir sögðu að fyrirhuguð bygging myndi skyggja á útsýni þeirra auk þess sem nýbyggingin samræmdist ekki aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar.


Hvorki í samræmi við aðalskipulag né landnotkunarflokk

Hafnarsvæði er samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar skilgreint sem svæði sem landnotkun tengist „fyrst og fremst hafsækinni starfsemi, s.s. mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, lestunar og losunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru, móttöku og brottfarar farþega, fiskvinnslu og starfsemi tengdri sjóflutningum og skipasmíði eða viðgerðum. Íbúðir eru ekki heimilar á hafnarsvæðum.“

Þá er sérstaklega tekið fram í aðalskipulagi um Suðurhöfn, hafnarsvæði H1 sem lóðin við Fornubúðir 5 tilheyrir, að miðað sé við að Suðurhöfnin verði áfram meginfiskihöfn höfuðborgarsvæðisins, vöruflutningahöfn og miðstöð skipasmíða og viðhaldsþjónustu við skipaflotann.

Breyting bæjarstjórnar á deiliskipulagi vegna lóðarinnar getur ekki fallið undir landnotkunarflokk hafna eins og skilgreint er í skipulagsreglugerð segir í úrskurði nefndarinnar.

Heimild: Visir.is