Eldur kom upp í húsi við Funahöfða í Reykjavík í gær. Slökkvilið hefur árum saman gert athugasemdir við búsetu í húsinu. Þremur húsum, þar sem búseta er ekki leyfð, hefur verið lokað á árinu og forráðamenn tveggja þeirra verið kærðir.
Að sögn Halldórs Oddssonar, lögmanns hjá ASÍ, er algengt að erlendir starfsmenn búi í ólöglegu húsnæði á vegum vinnuveitanda, jafnvel við hættulegar aðstæður.
„Bæði þá þannig að atvinnurekandi er leigusali viðkomandi og þá er þetta því miður stundum þannig og of oft að það er verið að misnota þá yfirburðastöðu sem vinnuveitandi hefur gegn erlendu vinnuafli að leigja óásættanlegt húsnæði á háu verði,“ segir Halldór.
Fjölmörg slík mál hafi borist til aðildarfélaga ASÍ.
Mikill húsnæðisskortur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hefur þau áhrif að í sumum tilfellum sjái fólk ekki aðra leið en að flytja í hrörlegt og ólöglegt húsnæði, að sögn Halldórs. Hann segir mál hafa komið til ASÍ þar sem erlendir starfsmenn búa á vinnustöðum sínum.
Aðstæður þeirra séu misjafnar, allt frá því að vera hættulegar; þar sem fólk býr í húsum sem hýsa gaskúta, logsuðutæki og vélar, yfir í að teljast ásættanlegar, þó að aldrei sé ásættanlegt að fólk búi á svæði sem er skipulagt fyrir iðnað.
Heimild: Ruv.is