Home Fréttir Í fréttum Mörg hundruð milljóna framkvæmdir á Dalvík

Mörg hundruð milljóna framkvæmdir á Dalvík

287
0
Í Dalvíkurbyggð eru íbúðir nú byggðar í stórum stíl, íþróttaaðstaða endurnýjuð og hafnarsvæðinu gjörbreytt fyrir nýtt hátæknifrystihús. Mikill uppgangur er í sveitarfélaginu og hlaupa framkvæmdir á mörg hundruð milljónum króna.

Líkt og flestir aðrir héldu Dalvíkingar að sér höndum eftir hrun og lítið var um framkvæmdir. Nú hefur dæmið snúist við. Tíu íbúðir voru byggðar í fyrra og búið er að úthluta lóðum undir tuttugu og tvær til viðbótar, þar af sjö fyrir fólk með sérþarfir.

<>

Hægt að keyra til Akureyrar í tíu ár fyrir mismuninn

Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs, segir þetta byltingu fyrir 1.900 manna sveitarfélag. Ein skýringin sé að Dalvíkurbyggð felldi í fyrra niður gatnagerðargjöld. „Þetta eru einhverjar, miðað við normal hús, í kringum þrjár milljónir sem byggingarkostnaðurinn lækkar. Þú keyrir til Akureyrar í tíu ár fyrir mismuninn af því að byggja á Dalvík og Akureyri,“ segir Börkur.

En framkvæmdir einskorðast ekki við íbúðabyggingar. Allsherjarendurbætur hafa verið gerðar á sundlaugarsvæðinu á Dalvík og er von á nýrri rennibraut – það eru framkvæmdir upp á um 240 milljónir króna. Og í haust verður hafist handa við að leggja nýjan gervigrasvöll í fullri stærð, sem er áætlað að kosti sveitarfélagið um 170 milljónir.

Fjárfestingar sem skila sér til íbúa

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir að sveitarfélagið ráði við þessar framkvæmdir, enda sé fjárhagsstaðan góð. „Þetta er heilmikill kostnaður, en íþróttafélögin eru líka að leggja á móti heil mikla sjálfboðavinnu. Þetta borgar sig í betri aðbúnaði í heild fyrir íbúana, og það er það sem við viljum,“ segir Katrín.

500 milljóna framkvæmdir við höfnina

Stærsta einstaka framkvæmdin er vafalaust nýtt hátæknifrystihús Samherja, sem verður reist á næstu mánuðum. Því fylgir mikil vinna við höfnina. „Það er í fyrsta lagi að dýpka, öðru lagi að reka niður þetta þil og fylla og ganga frá landfyllingum. Það þurfti einnig að færa til ytri mannvirki hafnarinnar gömlu,“ segir Þorsteinn Björnsson, sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs Dalvíkurbyggðar.

Viðlega er stækkuð um 156 metra, sem gerir tveimur togurum kleift að leggjast að bryggju. Þorsteinn segir að verkefnið, sem er langt komið, sé það stærsta sem sveitarfélagið hafi ráðist í lengi. „Heildarframkvæmdir eru um 500 milljónir þegar allt er til talið. 60% hlutdeild ríkisins og 40% hlutdeild Hafnarsjóðs Dalvíkurbyggðar,“ segir Þorsteinn.

Heimild: Ruv.is