Uppfært: Vegagerðin segir í tilkynningu sem hún sendi frá sér seint í kvöld að mjög líklegt verði að telja að sú gerð brúar sem ráðgjafarnir leggi til yfir Þorskafjörð sé mun dýrari lausn en tillögur Vegagerðarinnar um brúargerð geri ráð fyrir. Gera þurfi frekari rannsóknir á vegstæði yfir Þorskafjörð bæði með tilliti til vatnsskipta og vegna smíði brúar. Rannsóknir munu tefja vegalagningu á þessu svæði.
Þá segir Vegagerðin að leið um utanverðan Þorskafjörð, svokölluð leið R sem norsku ráðgjafarnir nefna sem vænlegan kost, sé líklega dýrari kostur en reiknað er með í skýrslunni. Leiðin er ekki ný af nálinni en henni var hafnað í matsáætlun Vegagerðarinnar frá 2015 á grundvelli kostnaðar, umferðaröryggis og lengingar akstursvegalengda, samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar.
Leita sátta með utanaðkomandi áliti
Sveitarstjórn Reykhólahrepps fékk norsku verkfræðistofuna Multiconsult til að rýna í tillögur Vegagerðarinnar, um legu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Með því er leitast við að ná sátt um verkið, sem hefur velkst um í kerfinu árum saman, vegna umhverfisáhrifa og kostnaðar. Vegagerðin vill fara svokallaða Þ-H leið um Teigsskóg. Það er ódýrasta leiðin en hún er talin valda miklum umhverfisáhrifum.
Skoðuð fyrri valmöguleika en bættu líka við og breyttu
Multiconsult skoðaði fimm tillögur Vegagerðarinnar að vegstæðum um Gufudalssveit. Stofan lagði til breytingar á leið D2 með styttri jarðgöngum undir Hjallaháls, og lagði svo til nýjan valmöguleika, leið R. Sú leið liggur um byggðina á Reykhólum og þverar Þorskafjörð við mynni hans.
Vegagerðin segir að framkvæmdir við R-leið gætu ekki hafist fyrr en einu til tveimur árum seinna en við Þ-H leið. Hún nefnir meðal annars í tilkynnigu að hönnun nýrrar veglínu taki sinn tíma sem og að byggja þurfi upp Reykhólasveitarveg í tengslum við leið R, sem gæti kallað á nýtt umhverfismat.
Telja nýja leið besta kostinn
Multiconsult telur leið R aftur á móti litlu dýrari en leið Þ-H um Teigsskóg. Vegagerðin gerði einnig tillögu að leið sem þverar Þorskafjörð, svokallaða A1-leið. Hún var ekki talin koma til greina vegna kostnaðar, umhverfisáhrifa og skorts á rannsóknum. Leið R er mun ódýrari en leið A1, þar sem brúin er stytt í 800 metra og vegurinn sem liggur að Reykhólum er nýttur. Multiconsult telur að brúin eigi ekki að hafa afgerandi áhrif á sjávarföll í innri hluta fjarðarins. Þá telur Multiconsult að veglína um Reykhóla hafi góð áhrif á byggðina. Því er niðurstaðan að leið R hafi fleiri kosti en aðrar leiðir og sé góð málamiðlun.
Vegagerðin reiknar með að taka þennan kost til frekari skoðunar óski Reykhólahreppur eftir því, en gerir þó margvíslegar athugasemdir við skýrslu Multiconsult. Frumathugun á leið R gæti í fyrsta lagi legið fyrir síðla hausts 2018, segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps hyggst á næstu dögum taka afstöðu til niðurstöðunnar í samráði við Vegagerðina.
Heimild: Ruv.is