Home Fréttir Í fréttum Byko áfrýjar til Landsréttar

Byko áfrýjar til Landsréttar

215
0
Mynd: RÚV
Byko hefur ákveðið að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Samkeppniseftirlitsins til Landsréttar. Héraðsdómur hækkaði sektir Byko úr 65 milljónum í 400 milljónir króna. Í tilkynningu frá Byko kemur fram að niðurstaðan hafi valdið vonbrigðum enda sé fyrirtækið sannfært um sakleysi sitt.

Fram hefur komið í fréttum að Byko var í gær gert að greiða 400 milljónir króna í sekt vegna brota fyrirtækisins á samkeppnislögum og EES-samningnum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði gert Byko að greiða 65 milljónir króna í sekt en Héraðsdómur hækkaði hana um 335 milljónir.

<>

Málið hófst 2010 þegar Múrbúðin tilkynnti til Samkeppniseftirlitsins tilraunir Byko og gömlu Húsasmiðjunnar að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði. Að lokinni athugun sektaði Samkeppniseftirlitið Norvik, móðurfélag Byko, um 650 milljónir króna. Norvik áfrýjaði og sektin var lækkuð niður í 65 milljónir. Samkeppniseftirlitið skaut þeirri ákvörðun til dómstóla og héraðsdómur gerði Byko í gær að greiða 400 milljónir króna í sekt.

Í tilkynningu frá Byko segir að niðurstaða héraðsdóms byggi „að stórum hluta á dómi Hæstaréttar frá árinu 2016 í málaferlum gegn starfsfólki sem hlut átti að þessu sama máli. Sá dómur var að okkar mati óréttlátur og vankantar á málsmeðferð. Í gær barst okkur tilkynning um að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði fallist á að taka ákveðna þætti í dómi Hæstaréttar til efnislegrar meðferðar“.

Heimild: Ruv.is