Home Fréttir Í fréttum Hafnartorg breytir ásýnd miðbæjarins

Hafnartorg breytir ásýnd miðbæjarins

421
0
Mynd: Aðsend mynd/Ruv.is
Nýjar íbúðir við Hafnartorg í miðbæ Reykjavíkur gætu kostað meira en milljón á hvern fermetra. Steinar úr gamla hafnargarðinum, sem var friðaður, verða meðal annars notaðir í klæðningu fjölbýlishúsanna.

Það er óhætt að segja að ásýnd miðbæjar Reykjavíkur mun taka verulegum breytingum með tilkomu Hafnartorgs. Þær breytingar eru nú óðum að taka á sig mynd.

<>

Framkvæmdirnar við Hafnartorg hafa verið mjög umdeildar. Fyrrverandi forsætisráðherra kallaði þær mesta skipulagsslys í miðbæ Reykjavíkur, og reyndi meira að segja að fá útliti þeirra bygginga sem þar rísa breytt.

Gamli hafnargarðurinn, sem fannst þegar framkvæmdir hófust, var friðaður og fluttur, stein fyrir stein, í geymslu. Hann verður meðal annars til sýnis í kjallara stærsta hússins, sem stendur við Lækjargötu. Þá verða steinar úr garðinum til dæmis notaðir í klæðningar húsa. Áætlanir um nýtingu hafnargarðsins voru gerðar í samvinnu við Minjastofnun.

Á milli húsanna verður göngugata og almenningsrými. Gert er ráð fyrir því að á neðstu hæðunum verði eingöngu verslanir, veitingastaðir og annars konar þjónusta, en íbúðir á hæðunum fyrir ofan.

Íbúðirnar eru framleiddar og markaðssettar sem lúxusíbúðir. Þar á meðal eru litlar stúdíóíbúðir og stórar þakíbúðir. Stefnt er að því að fyrstu íbúðirnar við Hafnartorg fari í sölu í næsta mánuði og að framkvæmdum ljúki síðar á árinu.

Það verður þó líklega ekki á allra færi að fjárfesta í þessum íbúðum. Fermetraverð á dýrustu íbúðunum verður meira en milljón. Stærstu íbúðirnar gætu orðið meira en fjögur hundruð fermetrar. Þær myndu þá kosta á fimmta hundrað milljónir króna.

Þrátt fyrir að fermetraverðið geti verið tvisvar sinnum hærra en meðalverð í miðbænum og allt að þrisvar sinnum hærra en meðalfermetraverð á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt tölum Hagstofunnar, hafa verktakar fundið fyrir verulegum áhuga kaupenda. Þá hefur Reginn, eitt stærsta fasteignafyrirtæki landsins, keypt öll verslunarrýmin á jarðhæð á Hafnartorgi.

Heimild: Ruv.is