Home Fréttir Í fréttum Svona skiptast milljarðarnir sem fara aukalega í vegina

Svona skiptast milljarðarnir sem fara aukalega í vegina

309
0
Frá Dettifossvegi Mynd: Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson

Grindavíkurvegur, Dettifossvegur og Borgarfjörður eystri eru meðal þeirra sem njóta góðs af fjögurra milljarða króna viðbótarfé, sem ríkisstjórnin ákvað að verja til vegagerðar í ár. Sextíu prósent fara til viðhalds. Fjallað var um skiptinguna í fréttum Stöðvar 2.

<>

Samgönguráðherra og vegamálastjóri hafa nú í sameiningu ráðstafað þessum fjórum milljörðum og búnir að gefa vegagerðarmönnum fyrirmæli um að láta peningana fara að vinna.

Biskupstungnabraut í vetur. Vegurinn, sem lagður er bundnu slitlagi, minnti fremur á malarveg.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, Óskar Örn Jónsson, segir að 2,4 milljarðar króna, eða um 60 prósent, fari til viðhalds.

„Viðhaldsþörfin er mjög mikil og síðan er hægur leikur að auka þar við umfang verka, – þannig að það er þægilegra að koma þeim fjármunum í vinnu,“ segir Óskar.

Stærstu viðhaldsverkin verða í uppsveitum Árnessýslu, á gullna hringnum, en í fréttum Stöðvar 2 í vetur kom fram að leiðir að Gullfossi og Geysi væru illa farnar eftir þunga ferðamannaumferð.

Til nýframkvæmda fara 1.640 milljónir króna en þeim fjármunum verður meðal annars ráðstafað til að stækka verkáfanga, sem þegar eru í framkvæmd, eins og á Dettifossvegi.

350 milljónum verður bætt í Grindavíkurveg, ofan á 200 milljónir, sem áður voru ákveðnar. Þar verða akstursstefnur skildar að á sex kílómetra kafla milli Bláalónsvegar og Reykjanesbrautar, og hraðaeftirlitsmyndavélar settar upp.

Í Reykjanesbraut fara 50 milljónir til að undirbúa tvöföldun í gegnum Hafnarfjörð, milli Kaldárselssvegar og Krýsuvíkurvegar. Ljúka á gerð útboðsgagna svo unnt verði að bjóða verkið út snemma árs 2019.

Í Suðurlandsveg um Ölfus fara 300 milljónir, sem fyrsti áfangi að breikkun milli Hveragerðis og Selfoss, en framkvæmdin kostar alls 5,5 milljarða króna.

Í Þingvallaveg um þjóðgarðinn fara 250 milljónir. Bæta á veginn frá þjónustumiðstöð að Vallavegi.

Á Vesturlandi fara 200 milljónir í Dalasýslu í bundið slitlag um Laxárdal, milli Grafar og Lambeyra.

Norðanlands fara 70 milljónir í malbik að Dagverðareyri og 200 milljónir í Dettifossveg, milli Súlnalækjar og Ásheiðar. Áætlað er að enn vanti 1.400 milljónir til að klára Dettifossveg að vestanverðu.

Austanlands fara 220 milljónir í slitlag á tvo kafla til Borgarfjarðar eystri. Af þeim fara 120 milljónir í Borgarfjarðarveg við Vatnsskarðsvatn og í Njarðvík og 100 milljónir í Njarðvíkurskriður.

Þar sem langt er liðið á vorið er ekki einfalt að koma nýjum verkum í gang með skömmum fyrirvara þannig að peningarnir nýtist á árinu.

„Okkur tókst í þetta sinn að bregðast við og koma þessum fjármunum í góð verk,“ segir forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

Heimild: Visir.is