Home Fréttir Í fréttum SORPA opnar Efnismiðlun Góða Hirðisins fyrir notuð byggingarefni

SORPA opnar Efnismiðlun Góða Hirðisins fyrir notuð byggingarefni

1596
0
Mynd: Sorpa.is

SORPA hefur sett af stað tilraunaverkefni sem staðsett verður á endurvinnslustöðinni á Sævarhöfða. Verkefninu er ætlað að búa til vettvang fyrir notuð byggingarefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda og listsköpunar. Stefnt er að því að safna og bjóða efni eins og timbur, timburhluti, hurðar, glugga, innréttingar, hellur, flísar, trjáboli, vaska, parket, dekk, reiðhjól, vörubretti og brúsa svo fátt eitt sé nefnt. Markmiðið er að markaðurinn bjóði upp á valkosti fyrir breiðan hóp viðskiptavina.

<>

Í skýrslu sem gerð var fyrir SORPU í aðdraganda verkefnisins af Haugfé, kemur fram að líklegustu viðskiptavinirnir séu einstaklingar og skólar. Notuð byggingarefni geta nýst einstaklingum sem eru í húsnæðisbreytingum, sumarbústaðabyggingu, garðvinnu eða listsköpun. Leikskólar, grunnskólar, lista- og verkmenntaskólar hafa einnig sýnt hugmyndinni athygli og hafa í gegnum tíðina óskað eftir aðgangi að ódýrara efni sem nú verður hægt að koma til móts við.

Tilgangur markaðsins er að vera vettvangur fyrir miðlun hráefnis til endurnotkunar. Endurnotkun efnis og vöru er mikilvæg aðgerð til að nýta auðlindir okkar allra sem best á hverjum tíma. Á markaðinum verður einnig framboð af efni og vöru, sem jafnvel er ekki í boði annarsstaðar, svo sem gamlar hurðir og veðrað timbur. Verðlagning verður hófstillt og verður hægt að gera kostakaup á markaðinum. Markmiðið er að skapa farveg fyrir skynsama nýtingu nothæfrar vöru.

Hagnaður sem kann að verða af sölu efna mun renna til góðgerðarmála, líkt og á við um hagnað af sölu húsbúnaðar hjá Góða Hirðinum í Fellsmúla.

Efnismiðlun Góða hirðisins á endurvinnslustöðinni á Sævarhöfða opnar föstudaginn 11. maí 2018. Opnunartími markaðsins verður mánudaga til laugardaga 12.00-17.30 en lokað verður á sunnudögum.

Heimild: Sorpa.is