Home Fréttir Í fréttum Heilbrigðisráðherra vill flýta framkvæmdum

Heilbrigðisráðherra vill flýta framkvæmdum

73
0
Mynd: Ruv.is
Heilbrigðisráðherra ætlar að beita sér fyrir því að framkvæmdum við legudeildir á Sjúkrahúsinu á Akureyri verði flýtt eins og kostur er. Forstjóri sjúkrahússins fagnar þessu, en hefur áhyggjur af því að fjárframlög næstu ára dugi ekki til að mæta aukinni starfsemi.

Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri var haldinn í dag og var ný ársskýrsla kynnt. Útgjöld vegna reksturs hækkuðu um 9% í fyrra og var rekstrarniðurstaðan neikvæð um tæpar 62 milljónir króna.

<>

Munar þar mestu um gjaldfærslu orlofsskuldbindingar að upphæð tæplega 78 milljóna króna, en samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál ber að taka orlofsskuldbindingu með í ársreikning.

Starfsemin eykst á hverju ári

Bjarni Jónasson forstjóri fór yfir starfsemi síðasta árs, sem var meiri á flestum sviðum en árið áður. Sem dæmi fjölgaði legudögum um 1,5%, sjúklingum á legudeildum um 1,2% og komum á dagdeildir um 1,6%. Þá jukust almennar rannsóknir um tæplega 12% milli ára og sjúkraflug um rúmlega 19%.

Bjarni segir mikla áskorun fólgna í því hve mikið starfsemin hafi aukist. „Ef við horfum til síðustu fimm ára þá hefur aukningin verið á bilinu 3-4% á ákveðnum sviðum,“ segir Bjarni. Þó sé aðeins áætlað að framlög til reksturs sjúkrahúsa aukist um að meðaltali 2% á ári, sem hann efast um að dugi.

Mynd með færslu
Frá ársfundinum í dag Mynd: Bragi Bergmann – RÚV

Vill hefja framkvæmdir fyrr en 2023

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerði nýbyggingu við sjúkrahúsið að umtalsefni. Samkvæmt fjármálaáætlun eiga framkvæmdir við nýjar legudeildir að vera hafnar 2023. Svandís segir að þörfin sé afar brýn og vill beita sér fyrir því að undirbúningur hefjist á allra næstu vikum og að framkvæmdum verði flýtt ef hægt er. „Ef kostur er á því að hefja framkvæmdir ennþá fyrr þá vil ég ekki að við horfum framhjá þeim möguleika við gerð næstu fjármálaáætlunar. Það er það sem ég vildi tjá ársfundinum hér að minn vilji stæði til,“ segir Svandís.

Bjarni fagnar þessu. „Því fyrr sem við getum hafist handa við framkvæmdir, klárað þetta og boðið sjúklingum upp á nútímalega aðstöðu, þeim mun betra,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is