Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum er löngu hætt að rúma íþróttaiðkun Hattar á Fljótsdalshéraði en hjá íþróttafélaginu eru starfandi 8 deildir með um 900 iðkendur á öllum aldri. Mikill tími fer í að byggja upp áhöld fyrir fimleikaæfingar og að taka áhöldin niður eftir æfingar. Höttur skrifaði undir samning við Fljótsdalshérað á síðasta ári um byggingu á fimleikahúsi og er stefnt að því að taka húsið í notkun árið 2020.
Samhliða verður farið í framkvæmdir við búningsaðstöðu, starfsmannaaðstöðu og breytingu á innra skipulagi íþróttamiðstöðvarinnar.
Fram kemur í fréttatilkynningu að aðalhönnuður hússins sé Anna María Þórhallsdóttir og verkfræðistofurnar Efla og Mannvit sjái um aðra hönnunarþætti svo sem á burðarvirki, lögnum og rafkerfum. Stefnt er að því að hönnun ljúki á vormánuðum og gögn til útboðs verði tilbúin í byrjun sumars. Prufuholur voru teknar í mars og framkvæmdir á ákveðnum verkþáttum gætu hafist síðar á þessu ári.
Davíð Þór Sigurðarson, formaður íþróttafélagsins Hattar, segir í tilkynningu að spennandi verði leita leiða með einstaklingum og fyrirtækjum til að láta verkefnið verða að veruleika. Höttur óski eftir því að þeir sem vilji leggja byggingu finleikahússins lið setji sig í samband við Hött. „Í gegnum árin höfum við séð velvilja baklands íþróttahreyfingarinnar í að láta verkefni ganga upp þar sem aðilar á vegum íþróttafélagsins gefa tíma og orku sína í málefni, sem koma samfélaginu okkar til góða.“
Heimild: Ruv.is