Home Fréttir Í fréttum Lagfæringar á Grindavíkurvegi í sjónmáli

Lagfæringar á Grindavíkurvegi í sjónmáli

165
0
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Vegagerðin hefur sent út boð til verkfræðistofa um að taka þátt í útboði á hönnun breikkunar Grindavíkurvegar. Útboð gæti því farið fram síðsumars, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Ekki er þó hægt að segja á þessari stundu hvenær framkvæmdir geta hafist.

Alþingi samþykkti í lok síðasta árs að verja 200 milljónum króna til lagfæringa á Grindavíkurvegi. Þeim verður varið í að aðskilja akreinar með vegriði á sex kílómetra kafla, frá Seltjörn að afleggjara að Bláa lóninu. Þar verður vegurinn einnig breikkaður að hluta þannig að hægt verði að taka fram úr. Fulltrúar Grindavíkurbæjar áttu fund með Vegagerðinni í síðustu viku þar sem rætt var um framkvæmdirnar. Kristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs Grindavíkur, segir að margir Grindvíkingar hafi miklar áhyggjur af bágu ástandi vegarins. „Nú er loksins í sjónmáli að baráttan er að skila sér. Við vorum mjög sátt eftir fundinn með Vegagerðinni,“ segir hún.

<>

Á síðasta ári urðu tvö banaslys á Grindavíkurvegi, eitt alvarlegt slys þar sem einn farþegi slasaðist alvarlega. Fimm hlutu minniháttar meiðsli í þremur slysum.

Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku að veita fjórum milljörðum aukalega til vegaframkvæmda á árinu. Þeir fjármunir koma til viðbótar við þá átta milljarða sem áður hafði verið samþykkt að verja í málaflokkinn á árinu. G. Pétur segir að verið sé að fara yfir það hvernig eigi að skipta nýju fjárveitingunni. Ekki sé ólíklegt að hluti af þeim fari í framkvæmdir á Grindavíkurvegi þar sem 200 milljónir dugi skammt.

Heimild: Ruv.is