Home Fréttir Í fréttum Styttist í útboð Húss íslenskra fræða

Styttist í útboð Húss íslenskra fræða

366
0

Stefnt er að útboði verklegrar framkvæmdar Húss íslenskra fræða í sumar og að framkvæmdir hefjist í haust. Verklok eru áætluð árið 2021. Byggingin mun rísa við Arngrímsgötu 5.

<>

Lóðin afmarkast af Suðurgötu til austurs, Guðbrandsgötu til suðurs og Arngrímsgötu til vesturs. Norðan megin við Hús íslenskra fræða er Þjóðarbókhlaðan.

Hús íslenskra fræða mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verða ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir nemendur á mismunandi stigum háskólanáms, fyrirlestra- og kennslusalir, almennar skrifstofur, bókasafn með lesrými, auk kaffistofu og tækni- og stoðrýma.

Hönnun Húss íslenskra fræða byggir á verðlaunatillögu Hornsteina arkitekta ehf. í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2008. Tæknilegur ráðgjafi þeirra var Almenna verkfræðistofan hf. sem nú er Verkís hf. Byggingin verður á þremur hæðum, auk kjallara undir hluta hússins. Opinn bílakjallari verður sunnan og vestan megin við húsið. Byggingin er sporöskjulaga, staðsteypt með veðurhjúp /málmklæðningu. Gönguleið milli Háskóla Íslands og Þjóðarbókhlöðu liggur í gegnum bygginguna sem er umlukin grunnri spegiltjörn. Innan sporöskjulaga formsins er komið fyrir inngörðum sem skrifstofur og fleiri rými opnast út í. Í kjallara verður aðallega að finna þjónusturými, svo sem eldhús, skiptiaðstöðu starfsmanna, geymslur, þar með talið handritageymslur, og tengd rými. Þá er bílageymsla í kjallara, aðstaða fyrir sorp og sorpflokkun, tæknirými og fleira.

Mynd: arnastofnun.is

Sérstök áhersla hefur verið lögð á öryggi og öryggismál og er handritageymslan í kjallara hússins til dæmis hönnuð sem „hús í húsinu“. Háar öryggiskröfur eru gerðar til byggingarinnar og tekur hönnun mið af þeim kröfum.

Helstu stærðir 

  • Lóð: um 6.502 m²
  • Stærð byggingar/birt flatarmál, án bílakjallara: um 6.477 m²
  • Byggingarmagn ofanjarðar: um 5.038 m²
  • Stærð bílakjallara: um 2.230 m²
  • Brúttó rúmmál: um 28.548 m³
  • Bílastæði í bílakjallara: 60
  • Bílastæði á lóð: 12

Hús íslenskra fræða var hannað samkvæmt aðferðarfræði vistvænnar hönnunar og BIM (e. Building Information Modeling) og munu verktakar (aðalverktaki og undirverktakar) og eftirlitsaðili verkkaupa nýta BIM líkön á framkvæmdatíma verksins.

Stefnt er að því að fá alþjóðlega umhverfisvottun samkvæmt BREEAM á nýbygginguna en slíkt vottunarferli tekur til margra þátta verktaka á byggingarstað. Haldið verður námskeið fyrir bjóðanda um kröfur BREEAM til eftirlits verksins.

Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskóli Íslands

Umsjón og eftirlit: Framkvæmdasýsla ríkisins

Samþykktar aðalteikningar hjá byggingarfulltrúa Reykjavíkur.

Heimild: Fsr.is