Home Fréttir Í fréttum SS Byggir fagnar 40 ára afmæli

SS Byggir fagnar 40 ára afmæli

265
0
SS Byggir 40 ára. Starfsfólkið stillti sér upp til hópmyndatöku í Glerárdalnum á afmælisdaginn. Hluti af nýju Glerárstíflunni er í baksýn. Mynd: Kaffid.is/SS Byggir

Föstudaginn 16. mars sl. fagnaði SS Byggir á Akureyri 40 ára afmæli sínu en þann dag árið 1978 hóf fyrirtækið starfsemi. SS Byggir er í hópi stærstu byggingafyrirtækja landsins og örugglega í hópi þeirra elstu, því meðallíftími fyrirtækja í byggingaiðnaði er því miður ekki mjög hár hér á landi.

<>

„Við hættum snemma í vinnunni á föstudaginn og hittumst öll í höfuðstöðvunum í Njarðarnesi og lögðum þaðan í leiðangur vítt og breitt um bæinn,“ segir Sigurður Sigurðsson, einn stofnenda fyrirtækisins og framkvæmdastjóri þess, aðspurður um hvort starfsmenn hefðu gert sér dagamun í tilefni afmælisins.

Fjölbýlishús með ýmsum nýjungum og ný Glerárstífla

Starfsmenn fóru í rútu í nýjasta fjölbýlishúsið sem SS Byggir hefur reist en það er 23 íbúða hús að Kristjánshaga 2, í nýjasta hverfi Akureyrar. Hópurinn skoðaði eina fullbúna íbúð og fékk að kynnast helstu nýjungum sem þar eru í boði.

„Við leggjum mikla áherslu á góða hljóðvist í íbúðunum og hljóðeinangrun á milli íbúða og hæða. Svo er sérstakt loftskiptikerfi í hverri íbúð sem dregur úr hitunarkostnaði og gerir það að verkum að aldrei verður þungt loft í íbúðunum,“ segir Sigurður. Kerfið tryggir öflug og góð loftskipti allt árið um kring, óháð veðri og vindum, að sögn Sigurðar. Hann segir umræðuna um heilbrigt inniloft íbúða vaxandi á meðal almennings. Loftskiptikerfið tryggi gæði inniloftsins og nánast útiloki að raki, og þar með mygla og sveppir, geti tekið sér bólfestu í íbúðunum.

Úr Kristjánshaganum hélt hópurinn sem leið lá að nýrri stíflu sem SS Byggir er að reisa fyrir Fallorku inni á Glerárdal. Þar er um mikið mannvirki að ræða, en alls má gera ráð fyrir að um 1.400 rúmmetra af steypu þurfi til að ljúka verkinu. Framkvæmdir hófust sl. haust og er ætlunin að taka stífluna í notkun nú í sumarbyrjun.

SS Byggir er með fimm fjölbýlishús í byggingu á reit sem afmarkast af Kristjánshaga, Davíðshaga, Kjarnagötu og Elísabetarhaga í nýjasta íbúðahverfinu á Akureyri. Húsin mynda hring og innan hans verður yfirbyggður leikvöllur úr gleri, til afnota fyrir íbúa allra húsanna.

Fertugasta húsið í Hálöndum á 40 ára afmælinu!

Að lokinni hópmyndatöku við nýju Glerárstífluna var haldið í bæinn á nýjan leik. „Við tókum rúnt um bæinn fram hjá ýmsum mannvirkjum sem við höfum byggt á þessum 40 árum en þau eru ótrúlega mörg,“ segir Sigurður. Hann nefnir fjölmörg einbýlishús, raðhús og parhús, fjölbýlishús, skóla, íþróttahús og hús undir atvinnustarfsemi af ýmsum toga.

Að lokinni skoðunarferð um bæinn hélt hópurinn svo í síðbúinn hádegisverð á veitingahúsinu Greifanum.

Sigurður nefnir að SS Byggir stefni að því að reisa fertugasta húsið í Hálöndum, orlofshúsabyggðinni steinsnar neðan við skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, á árinu. „Það er vel við hæfi að fertugasta húsið rísi á fertugsafmæli fyrirtækisins,“ segir hann.

Að sögn Sigurðar eru öll 40 húsin seld og biðlisti er tekinn að myndast eftir fleiri húsum. „Við bíðum eftir leyfum frá Akureyrarbæ til að geta reist fleiri hús og vonandi fæst grænt ljós sem fyrst. Við viljum gjarnan geta sinnt þessari miklu eftirspurn, sem er í ágætum takti við áætlanir okkar, sem fáir töldu raunhæfar á upphafsdögum verkefnisins.“

60 manna fyrirtæki og mikil margfeldisáhrif

Sigurður segir að um 60 manns starfi fyrir SS Byggir og TAK-innréttingar. Auk þess eigi SS Byggir gott samstarf við fjölda sjálfstæðra iðnaðarmanna og undirverktaka og því megi segja að um 100 mans starfi hjá eða fyrir SS Byggir að jafnaði. „Afleiddu störfin eru svo enn fleiri, svo sem við hönnun, eftirlit, framleiðslu og í verslun og þjónustu,“ segir hann.

„Ég er afskaplega stoltur af því að hafa rekið þetta góða fyrirtæki í 40 ár á einni og sömu kennitölunni. Það er ekki síst að þakka frábæru starfsfólki. Saman höfum við leitað lausna á vandamálum sem upp hafa komið og breytt þeim í verkefni. Fyrirtækið er leiðandi í að þróa og taka í notkun nýjungar í byggingaiðnaði. Ég nefni sem dæmi lausnir sem snúa að bættri hljóðvist og loftskiptum, eins og ég nefndi hér að framan,“ segir hann.

Haldið upp á afmælið allt árið

Sigurður segir að afmælisdagurinn sjálfur hafi bara verið fyrsti liðurinn í afmælishaldinu. „Við ætlum að fagna afmælinu út árið og gera margt skemmtilegt. Næsta skref er tengt Byggingadögum í Hofi á Akureyri laugardaginn 14. apríl nk. Ætlunin er að vera með opið hús í Kristjánshaga og í höfuðstöðvunum í Njarðarnesi og bjóða upp á veitingar á báðum stöðum. Svo verði sætaferðir þarna á milli með viðkomu í Hofi og góðum rúnti um bæinn til að skoða ýmsar byggingar sem við höfum reist.“

Fyrirtækið verður lokað í eina viku, dagana 26. apríl til 2. maí nk., vegna afmælisferðar starfsmanna og maka til Marokkó. „Ég segi þér seinna hvað við ætlum að gera til hátíðarbrigða í haust,“ segir Sigurður Sigurðsson að lokum.

Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri SS Byggir, og eiginkona hans, Hólmfríður Dóra Kristjánsdóttir, fjármála- og starfsmannastjóri fyrirtækisins, framan við höfuðstöðvar þess í Njarðarnesi 14.

 

Heimild: Kaffid.is /Norðurland